Veðmálastarfsemi

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 16:06:38 (562)


[16:06]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Sem svar við 1. spurningu skal þetta tekið fram: Samkvæmt ákvæðum greindra laga veitir dómsmrh. leyfi fyrir slíkri veðmálastarfsemi með reglugerð. En einnig hefur ráðuneytið veitt heimild til veðmálastarfsemi við einstakar kappreiðar með sérstöku leyfisbréfi og þá með vísun til settra reglugerða. Engin slík reglugerð er nú í gildi.
    Sem svar við 2. spurningu skal þetta tekið fram: Seinast var veitt leyfi til veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar bikarmóts Norðurlands í hestaíþróttum á Melgerðismelum í Eyjafirði 20. og 21. ágúst árið 1988. Seinast var gefin út reglugerð um veðmálastarfsemi 23. maí 1980 og var það fyrir veðmálastarfsemi Hestamannafélagsins Fáks í Reykjavík. Sú reglugerð gilti í 5 ár.
    Varðandi veðmálastarfsemi í sambandi við kappróður var gefin út reglugerð nr. 78 28. maí 1942 og gildir sú reglugerð um veðmálastarfsemi í sambandi við kappróður Sjómannadagsins. Sú reglugerð var ekki tímabundin.
    Sem svar við spurningu nr. 3 er það að segja að engar upplýsingar liggja fyrir varðandi þessa spurningu. Þeir sem rekið hafa veðmálastarfsemi við kappreiðar eða kappróður hafa ekki skilað uppgjöri til ráðuneytisins.
    Varðandi 4. spurninguna er það að segja að af hálfu dómsmrn. liggja engar slíkar skilgreiningar fyrir á öðrum lögum sem þar er spurt um.
    Varðandi þau ummæli sem hv. fyrirspyrjandi hafði hér um söfnunarkassa Rauða krossins er þess að geta að Rauði krossinn fékk leyfi til fjársöfnunar með sérstökum kössum árið 1972. Það var útgefið af þáv. dómsmrh. Ólafi Jóhannessyni. Þetta leyfi byggist

ekki á sérstökum lögum, heldur er það almennt leyfi til fjársöfnunar en ekki happdrættisreksturs og þess vegna er það á misskilningi byggt að einhver reglugerð um það efni hafi runnið út árið 1973 og ég veit ekki hvaðan sú hugmynd er komin því að um þetta efni hefur ekki verið sett nein reglugerð, enda byggist þessi starfsemi ekki á sérstökum lögum heldur heimild til almennrar fjársöfnunar. Það er hins vegar annað mál sem ég hef vakið athygli á að það má deila um hvort nýjustu söfnunarkassarnir sem svo hafa verið nefndir séu í samræmi við þá skilgreiningu að um sé að ræða almenna fjársöfnun, hvort þeir eru ekki nær því að vera happdrættisvélar, og ráð er fyrir því gert að setja um þetta efni almenna löggjöf.