Veðmálastarfsemi

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 16:12:46 (564)

[16:12]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég tók það fram í umræðum á Alþingi í síðustu viku að ég teldi fulla þörf á því að setja heildstæða löggjöf um þessa starfsemi. Það er að vísu ekki einfalt og eins og hv. alþm. vita þá blandast inn í það miklir hagsmunir og á stundum æði miklar tilfinningar. En hvað sem því líður, þá er ég enn þeirrar skoðunar að það sé á þessu full þörf.
    Það er einnig þörf að finna ákveðnar reglur til þess að vinna eftir varðandi eftirlit með fjársöfnunum og ráðstöfunum á fjármunum sem aflað er með sérstökum happdrættum eða öðrum þvílíkum leiðum þannig að allur almenningur eigi aðgang að upplýsingum um ráðstöfun þessa fjár. Það er í verkahring sýslumanna að ganga eftir upplýsingum um fjársafnanir. Ég held að allir geri sér hins vegar grein fyrir því að eins og þessari starfsemi er háttað og eins og starfsemi sem fer fram á grundvelli sérstakra laga er umfangsmikil, þá þarf að koma nýju skipulagi á eftirlitið þannig að endurskoðendur, hugsanlega Ríkisendurskoðun, eigi aðgang með öruggum hætti að bókhaldi þessara aðila og geti gert grein fyrir rekstri og ráðstöfun fjár. Ég tel þetta vera mjög nauðsynlegt og að því verður auðvitað unnið að koma þessum málum í eðlilegt horf.