Samningur gegn ólöglegri verslun með fíkniefni

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 16:23:09 (569)

[16:22]
     Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Fyrir þremur árum bar ég fram við þáv. dómsmrh. þessa sömu spurningu um hvort Ísland hygðist staðfesta samning Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni sem gerður var í Vínarborg 1988. Þáv. dómsmrh. kvað það staðfasta ætlun íslenskra stjórnvalda að fullgilda samninginn.
    Það kom fram að um tvíþætt verkefni væri að ræða. Annars vegar að undirbúa málið fyrir Alþingi og leita heimildar þess til að mega staðfesta samninginn. Hins vegar að um flókið lagatæknilegt úrlausnarefni væri að ræða þar sem kanna þyrfti hvaða lögum þyrfti að breyta og á hvern hátt.
    Í umræðum um fíkniefnavandann fyrr á þessu kjörtímabili var upplýst að dráttur á fullgildingu samningsins væri fyrst og fremst vegna þess að ólokið væri lagasetningu um svokallaðan peningaþvott. Lög um það efni voru samþykkt frá Alþingi sl. vor. Það er því eðlilegt að leita svara um hvað líði fyrrgreindum áformum.
    Í nokkur ár hafa alþjóðleg samtök beitt sér fyrir lögleiðingu fíkniefna. Umræða um slík viðhorf hefur verið vakin á Vesturlöndum og hér í norðri. Fyrir þremur vikum tók ég þátt í norrænni ráðstefnu hér í Reykjavík sem foreldrasamtök á Norðurlöndum gegn fíkniefnanotkun stóðu að og undirbúin var af fræðslumiðstöð samstarfsnefndar sem Vímulaus æska og fleiri samtök hérlendis standa að. Þar voru þessi mál rædd og því sjónarmiði hafnað að lögbinding geti verið lausn á þessum mikla vanda. Fjölmargir aðilar starfa saman og leggja sitt af mörkum að forvarnastörfum, en skýra löggjöf vantar á mörgum sviðum varðandi þessi mál. Samningur Sameinuðu þjóðanna er ítarlegur og fjallar m.a. um afbrot og viðurlög, refsivald, upptöku, framsal, gagnkvæma dómsmálaaðstoð, samvinnu og þjálfun. Það er afar mikilvægt að taka þátt í slíkum alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna sem og í öðru samstarfi sem fyrirhugað er á þeim vettvangi.
    Áhugavert er að í laganefnd Norðurlandaráðs er einnig til umfjöllunar tillaga um nýja norræna samstarfsáætlun varðandi fíkniefnavandann og önnur tveggja tillgreinanna fjallar um að Norðurlandaráð mæli með því við ríkisstjórnir á Norðurlöndum að þær beiti sér fyrir að lönd innan EB og EFTA staðfesti samning Sameinuðu þjóðanna sem hér er til umræðu. Með tilliti til þessa og mikilvægis baráttunnar gegn fíkniefnavandanum og innflutningi á ólöglegum efnum ber ég spurninguna fram á ný.