Samningur gegn ólöglegri verslun með fíkniefni

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 16:26:04 (570)

[16:26]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það er fyrirhugað að fullgilda framangreindan samning af Íslands hálfu og hefur undirbúningur að því verkefni þegar verið hafinn í ráðuneytinu. Samningurinn hefur þegar verið þýddur á íslensku en nú er verið að yfirfara þá þýðingu. Áður en samningurinn verður fullgiltur þarf að breyta nokkrum ákvæðum almennra hegningarlaga og e.t.v. fleiri laga.
    Ég hef einnig talið eðlilegt að jafnframt því að undirbúa fullgildingu þessa samnings verði unnið að undirbúningi að fullgildingu á samningi um þvætti og um hald, leit og upptöku ávinnings af afbrotum sem gerður var í Strassborg 1989, en efni þessara samninga er að sumu leyti skylt. Við gerum ráð fyrir því að það muni taka um 3--5 mánuði að ljúka undirbúningi málsins þannig að unnt verði að leggja það fyrir Alþingi. Miðað við stöðu þessa verkefnis og annarra í ráðuneytinu geri ég ráð fyrir því að samkvæmt þessu ætti að vera unnt að leggja málið fyrir Alþingi í marsmánuði.