Samningur gegn ólöglegri verslun með fíkniefni

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 16:29:43 (572)

[16:29]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. hversu brýnt er að taka á þessum viðfangsefnum. Þau eru margþætt og úrræðin sem við ráðum yfir eru líka margþætt og á mörgum sviðum þjóðlífsins. Kannski skiptir nú öllu máli eða mestu máli að koma fram meiri ábyrgð einstaklinga og fjölskyldna en hvers konar önnur félagsleg viðfangsefni, lögregluviðfangsefni og alþjóðlegt samstarf er mjög mikilvægt í þessu efni.
    Við höfum stutt viðleitni Sameinuðu þjóðanna að þessu leyti og í þessari viku fara fram á vettvangi allsherjarþingsins sérstakar umræður um þetta viðfangsefni. Aðstoðarmaður minn sækir þing allsherjarþingsins þar sem verið er að fjalla um þessi efni og við höfum viljað leggja á það sérstaka áherslu að við tækjum fullan þátt í því starfi, ekki aðeins til þess að sýna það út á við, heldur einnig til þess að styrkja okkur sjálfa í viðureigninni við þennan vágest.