Orsakir atvinnuleysis

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 16:31:20 (573)

[16:31]
     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Vaxandi atvinnuleysi og margvíslegar afleiðingar þess er tvímælalaust alvarlegasta vandamál íslensku þjóðarinnar. Sú uggvænlega þróun á sér fleiri en eina ástæðu sem vega þar misjafnlega þungt. Til að sigrast á þessum vágesti hlýtur að vera mikilvægt að reyna að gera sér sem best grein fyrir hverjar orsakirnar eru. Ég hef því á þskj. 27 borið fram eftirfarandi fsp. til hæstv. forsrh.:
    ,,Hve stóran þátt í auknu atvinnuleysi í landinu á síðustu tveimur árum á samdráttur í landbúnaði á því tímabili ásamt samdrætti í úrvinnslu- og þjónustugreinum sem af minnkandi búvöruframleiðslu stafar?``
    Í ályktun sem allsherjarnefnd búnaðarþings lagði fram á sl. vetri kom fram að haustið 1991 og 1992 hafi framleiðslusamdráttur og verðlækkun í mjólkur- og sauðfjárframleiðslu numið sem svarar 1.350 ársverkum. Þar við bætast 180 ársverk sem talið er að leiði af samdrætti á þessu hausti. Þá er eftir að meta hve margir munu missa atvinnu í úrvinnslu- og þjónustugreinum sem stafar af svo miklu minni frumframleiðslu og er þessi fyrirspurn borin fram til að fá upplýsingar um það. Og þá hvað þessi hópur allur sem byggir afkomu sína á einhvern hátt á landbúnaði er stór hluti af þeim fjölda sem nú er skráður atvinnulaus. En samkvæmt nýjustu upplýsingum fer sá fjöldi nú því miður aftur vaxandi og horfur taldar slæmar fyrir næsta ár.
    Aðdragandi fyrrnefnds samdráttar í landbúnaði er búvörusamningurinn 1991 en síðan hann var gerður hafa ýmsar forsendur hans brugðist, svo sem vegna sölusamdráttar á innanlandsmarkaði. Sérstaklega er þó alvarlegt að gengið var út frá því þá að flestir sem yrðu að draga saman búrekstur gætu fengið aðra atvinnu í nágrenni. Það er nú víðast hvar ekki hægt vegna hins almenna atvinnuleysis. Það er því brýnt að gera sér glögga grein fyrir því hversu mikið áfall slíkur framleiðslusamdráttur er fyrir þjóðarbúið svo að það sé til aðvörunar ríkisvaldinu að taka ekki neinar ákvarðanir sem kynnu að auka þennan vanda jafnframt því sem það gæti gefið vísbendingar um hvernig snúa megi vörn í sókn.