Réttur feðra til launa í fæðingarorlofi

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 16:50:10 (581)


[16:50]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Þetta svar hæstv. fjmrh. kalla ég að fara eins og köttur í kringum heitan graut. Mér finnst vera ansi loðið hvort hann ætli, sem hann getur auðvitað gert, að beita sér fyrir nýrri túlkun á þeim lögum sem í gildi eru, þ.e. túlkun sem væri þá hagstæðari feðrum í þjónustu ríkisins sem taka fæðingarorlof.
    Það sem mér fannst ég skilja af ræðu hans hér áðan var það að hann væri tilbúinn að beita sér fyrir því að lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá 1954 væru endurskoðuð, 17. gr. yrði breytt, það væri bara sjálfsagt og eðlilegt. En henni yrði breytt á þann veg að konur í þjónustu ríkisins yrðu í rauninni að greiða fyrir þann rétt, sem hann lýsti sig hugsanlega tilbúinn til að veita feðrum, með því að skerða réttarstöðu sína með vissum hætti frá því sem hún er núna, því auðvitað njóta konur í þjónustu ríkisins þeirrar sérstöðu, ásamt þeim sem vinna hjá bönkunum, að halda launum í fæðingarorlofi. Mér heyrðist á fjmrh. hér áðan að hann væri í rauninni að segja það að hann teldi að þessu ætti að breyta, að konur í þjónustu ríkisins ættu ekki eftir endurskoðun laganna, sem hann hyggst beita sér fyrir, að njóta fullra launa í fæðingarorlofi og feður ættu með ákveðnum

hætti að koma þarna inn. Þetta skildi ég af ræðu hæstv. fjmrh. En eins og ég sagði: Mér fannst hann fara eins og köttur í kringum heitan graut og þetta er eitthvað sem ég verð bara lesa í ræðu hans hér áðan. Þykir mér auðvitað mjög miður ef þetta er ætlun ráðherrans að standa svona að málum en ekki að vinda bráðan bug að því að túlka lögin með þeim hætti að feður í þjónustu ríkisins geti notið þessa sjálfsagða réttar.