Einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 16:54:43 (584)

[16:54]
     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Mér er það ljóst að ég hreyfi hér viðkvæmu máli en það verður ekki komist hjá því að spyrja. Eins og menn muna þá er einn af hornsteinum stefnu ríkisstjórnarinnar svokölluð einkavæðing. Fljótlega eftir valdatöku núverandi ríkisstjórnar var einkavæðingarnefnd sett á laggirnar sem hefur skilað af sér víðtækum tillögum um sölu á sameiginlegum eignum okkar eða lagt til breytingar á ríkisstofnunum í hlutafélög sem eru ekkert annað en fyrsta skref í átt til einkavæðingar. Í hvítbókinni, Velferð á varanlegum grunni, er heill kafli um einkavæðingaráformin þar sem segir, m.a. með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin stefnir að því að gera átak til einkavæðingar starfsemi hins opinbera

á kjörtímabilinu. Markmið þessara ráðstafana er fyrst og fremst að auka skilvirkni og hagkvæmni í opinberum rekstri, bæta afkomu og skuldastöðu ríkissjóðs, draga úr vaxtagreiðslum og koma í veg fyrir skattahækkanir.``
    Halli ríkissjóðs á næsta ári mun ná nýjum hæðum og það þarf ekki að rifja upp fyrir þingmönnum hér skattahækkanir sem yfir okkur hafa gengið og aukna gjaldtöku af almenningi. Þessi stefnumörkun hefur því ekki náð fram að ganga í neinu. Þegar litið er á framkvæmd einkavæðingarstefnunnar blasir sama sagan við enda hafa hin miklu áform runnið út í sandinn að mestu leyti.
    Árið 1992 átti að einkavæða fyrir 1 milljarð kr. en 238 millj. skiluðu sér í ríkiskassann. Á þessu ári átti að selja fyrir 1,5 milljarða kr. þótt öllum mætti ljóst vera að það mundi aldrei ganga eftir enda stefnir í að salan skili um 100 millj. kr. nú. Enn skal þó haldið áfram og á næsta ári er meiningin að selja ríkiseignir fyrir 500 millj. kr. Maður spyr sig: Í hvaða heimi lifir fólk sem gerir áætlanir af þessu tagi í því efnahagsástandi sem hér ríkir og hvernig leyfa menn sér að halda svona áfram þegar ljóst er að kaupendur eru ekki til staðar? Og að svona loftkastalar gera ekki annað en að skekkja tekjuáætlanir ríkissjóðs og auka hallann?
    Ég vil taka fram að einkavæðing á rétt á sér að vissu marki en flest þau áform sem uppi eru á borði ríkisstjórnarinnar eru að mínum dómi mjög hæpin og skaðleg hagsmunum þjóðarinnar. Mér finnst ríkisstjórnin skulda okkur skýringu hér á hinu háa Alþingi á stefnu sinni ekki síst því hvernig hún skýrir skipbrot hennar enda var lítið minnst á þetta óþægilega mál í stefnuræðu forsrh. hér fyrr í haust, hvað þá í ræðu þeirri sem fjmrh. flutti þá við umræðuna. Því spyr ég hæstv. fjmrh. á þskj. 60: Hvaða skýringar telur fjmrh. vera á því að einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar hafa runnið út í sandinn og að sala ríkiseigna sem átti að skila 1.500 millj. kr. í ríkissjóð skilar aðeins 100 millj. kr. á þessu ári?