Einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 17:03:47 (587)

[17:03]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég minnist þess að þegar Austurstræti var breytt í göngugötu þá var sagt að verið væri að opna Austurstræti fyrir gangandi fólk. Reyndar hafði Tómas ort um það að menn hefðu gengið þarna áður. En hvað um það. Núv. ríkisstjórn segist vera að einkavæða. Ég veit ekki til að nokkurn tíma hafi átt sér stað jafnmikil þjóðnýting einkaframtaksins eins og framkvæmt hefur verið af núv. ríkisstjórn. Hún á banka, hún á skipafélög, hún á sláturhús, hún á allan þann rekstur sem nöfnum tjáir að nefna í þessu landi, að vísu í eigu sjóða og banka ríkisins. Það er nefnilega halli á einkavæðingunni. Það er verið að þjóðnýta íslenska athafnamenn aftan frá í stórum stíl í þessu landi. Þjóðnýta þá aftan frá. Og það verður að óska krötunum til hamingju með árangurinn í þjóðnýtingunni, kommúnisminn er dauður en kratarnir sjá um að þjóðnýta einkaframtakið aftan frá.