Umfang ómældrar yfirvinnu

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 17:23:13 (598)

[17:23]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég ætla ekki að leggja dóm á ummæli hv. þm. og tel þau vera eðlileg og auðvitað mun hann fylgja þeim málum eftir sem honum finnst hér á hinu háa Alþingi. Það er þó ástæða til þess að benda á að yfirvinna ásamt orlofi er 27,6% af heildarlaunagreiðslunum og ég get giskað á að orlof sé 8--9 prósentustig af því þannig að þetta er innan við 20% sem eru hreinlega yfirvinnulaun.
    Það er hárrétt hjá hv. þm. að þetta skiptist ójafnt á starfsmenn. Það er nú einu sinni þannig að vinnan leggst misjafnlega á starfsmennina og þess vegna myndast stundum talsverður launamunur.
    Virðulegi forseti. Mitt erindi í stólinn var fyrst og fremst að segja frá því að ég tel það vera hlutverk mitt hér fyrst og fremst að gefa upplýsingar um þessi atriði. Ef þær upplýsingar verða síðan til þess að um áframhaldandi vinnu verður að ræða af hálfu þingmannsins þá fagna ég því að sjálfsögðu og tek þátt í umræðu og eftir atvikum meðferð slíkra mála.