Staða forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 17:24:43 (599)

[17:24]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Í lögum um almannatryggingar nr. 67/1971, með síðari breytingum, er svo kveðið á, með leyfi hæstv. forseta, að ,,ráðherra skipar forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins að fengnum tillögum tryggingaráðs.``
    Eins og alþjóð er kunnugt brást tryggingaráð þeirri skyldu sem lögin setja því og lagði ekki fram tillögu um einn úr hópi umsækjenda áður en nýskipaður forstjóri var ráðinn, heldur taldi ákveðinn hóp manna hæfari en aðra. En eitt er þó víst að það lagði ekki til að forstjórar yrðu tveir fyrst um sinn.
    Nú lesum við það í fjölmiðlum að fyrrv. forstjóri sé enn við störf og verði enn um sinn og því hef ég leyft mér að óska svars við fyrirspurnum sem fyrir liggja á þskj. 57. Þær hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:
  ,,1. Hversu lengi verða forstjórar Tryggingastofnunar tveir og samkvæmt hvaða lögum?
    2. Hver eru laun forstjóranna tveggja og fríðindi?
    3. Hver var kostnaður við innréttingu skrifstofu handa fyrrv. forstjóra í húsi Tryggingastofnunar?
    4. Verður beiðni um framlag til þessarar breyttu skipunar í frv. til fjáraukalaga?``