Staða forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 17:28:21 (601)


[17:28]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Á fundi forsætisnefndar Alþingis í morgun lá fyrir beiðni hv. heilbr.- og trn. um 10 þús. kr. til að heimsækja sjúkrastofnanir á Suðurlandi. Við þeirri beiðni var orðið. Hér er hins vegar um að ræða laun sem fara hátt í 1 millj. kr. fyrir starfsmann sem ekki var gert ráð fyrir á fjárlögum. Innréttingakostnaður skrifstofu var 200 þús. Forsætisnefnd Alþingis tekur slíkar upphæðir alvarlega og telur ekki að þær rúmist innan fjárlaga. Ef slík ný útgjöld koma upp sem ekki hefur verið ráð fyrir gert á fjárlögum þykir það siður hér í húsi að fara fram á aukafjárveitingu. Það er því furðulegt að hæstv. ráðherra skuli upplýsa hér að ekki minna en 1 millj. kr. skuli rúmast innan fjárlaga og hvergi þurfa að biðja um heimild fyrir slíkri greiðslu. Þetta eru ný tíðindi fyrir mér sem nefndarmanni í fjárln.
    Í Dagblaðinu 1. okt. sl. er haft eftir hæstv. heilbrrh. undir fyrirsögninni ,,Heilbrigðisráðherra með tvo forstjóra í Tryggingastofnun ríkisins.`` Það hefur þegar komið hér fram að þeir eru tveir þar sem tveir menn njóta forstjóralauna. Og þar segir hæstv. ráðherra, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég óskaði strax eftir því að Eggert yrði áfram við störf í Tryggingastofnun næstu mánuði til að forstjóraskiptin gætu orðið með þeim hætti að fyrrum starfsmaður yrði nýjum forstjóra til ráðuneytis. Samhliða því hef ég óskað eftir að hann taki að sér ýmis sérverkefni. Eggert tók umleitan minni mjög vel.``
    Nú vill svo til að í Tryggingastofnun ríkisins veitir forustu hverri deild heill hópur mjög svo vel menntaðra starfsmanna sem tvímælalaust hefði verið forstjóra sínum til aðstoðar við hagræðingu og breytingar hvers konar og það segir sig auðvitað sjálft að hér er ekkert á ferðinni annað en persónuleg fyrirgreiðsla sem er auðvitað óþolandi að horfa upp á.