Héraðslæknisembættin

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 17:31:21 (602)

[17:31]
     Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 115 beini ég þeirri fsp. til heilbr.- og trmrh. um héraðslæknisembættin og spurningar mínar eru þessar:
  ,,1. Hvaða stefna hefur verið mótuð um framtíð héraðslæknisembættanna?
    2. Eru erindisbréf héraðslækna í endurskoðun? Ef svo er, hvenær má búast við að þeirri vinnu ljúki?
    3. Hvaða tíma er heilsugæslulækni í fullu starfi ætlað að taka til að sinna embættisverkum héraðslæknis og hvernig er séð fyrir afleysingu á meðan þeim verkefnum er sinnt?
    4. Hverjum verður falið að taka við þeim verkefnum sem héraðslæknisembættin í Reykjavík og á Akureyri hafa unnið ef sá niðurskurður sem boðaður er í fjárlagafrv. nær fram að ganga?``
    Héraðslæknisembættin eru einn hlekkur í stjórnun heilbrigðismála í landinu. Þennan hlekk þarf að styrkja því að svæðisbundin stjórnun þjónar íbúum svæðisins betur en ómarkvissar ákvarðanir ráðuneytis og landlæknisembættis. Svæðisbundna stjórnun þarf að styrkja með því að skapa héraðslæknum og heilbrigðismálaráðum héraðanna þá aðstöðu að geta sinnt þeim verkefnum sem ákveðin eru í lögum. Fram til þessa hafa bæði embættin verið óstarfhæf sökum skorts á starfskröftum og rekstrarfé.
    Í dag er unnið að stækkun sveitarfélaganna. Tilgangurinn er að styrkja þau og gera hæfari til að sinna núverandi og nýjum verkefnum og hefur heilsugæslan verið nefnd í því sambandi.
    Hlutverk héraðslæknisembættanna er með þeim hætti að það skiptir ekki höfuðmáli hvort rekstur heilbrigðisstofnana er í höndum ríkis eða sveitarfélaga. Það sem skiptir máli er að draga úr núverandi miðstýringu og koma ákvarðanatöku nær verkefnunum og fólkinu sem á að takast á við þau.
    Hlutverk og staða héraðslækna er óljós í stjórnkerfinu. Línur eru óljósar og því tilviljunarkennt hvaða málum er vísað til embættanna og hvaða málum þau sinna frá íbúum og stofnunum sinna héraða. Þetta er öllum ljóst og hlýtur því að veikja enn frekar embættin og þá einstaklinga sem þeim sinna. Heilsugæslulæknir í fullu starfi sem skipaður hefur verið sem héraðslæknir verður að eiga við eigin samvisku hvaða tíma hann tekur til að sinna embætti héraðslæknis. Meðan núv. fyrirkomulag varir verður að ákveða vinnuskyldu og skipuleggja afleysingaþjónustu til heilsugæslustöðvanna. Núv. fyrirkomulag þjónar þeim

tilgangi einum að viðhalda veikburða embættiskerfi en það getur líka verið markmiðið í sjálfu sér og skýringin á því hve litlar undirtektir tillögur til úrbóta hafa fengið hjá ráðuneyti og landlækni.
    Til að styrkja svæðisbundna stjórnun heilbrigðismála verða embætti héraðslækna að fá stöðugildi. Héraðslæknisembætti á Norðurl. e. hefur haft heilt stöðugildi undanfarin 5 ár. Þetta embætti hefur því getað sinnt sínum verkefnum og náð að skipa sér sess í sinni heimabyggð. Eins er með héraðslæknisembættið í Reykjavík. Það hefur alltaf haft sérstöðu og frá borgarlæknisembættinu og verkefnum í fjölmennasta læknishéraðinu.
    Samkvæmt frv. til fjárlaga fyrir árið 1994 er lagt til að framlög til þessara tveggja embætta lækki um tæplega 15 millj. kr. Framkvæmdin verði með þeim hætti að embætti héraðslæknis á Norðurl. e. verði sem áður, þ.e. heilsugæslulæknir gegni jafnframt embætti héraðslæknis og gert er ráð fyrir óskilgreindi fækkun starfsmanna hjá héraðslæknisembættinu í Reykjavík.