Skrifstofur heilbrigðismála

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 17:41:56 (605)

[17:41]
     Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 116 er fsp. til heilbr.- og trmrh. um skrifstofur heilbrigðismála, svohljóðandi:
  ,,1. Hvernig miðar undirbúningi að stofnun skrifstofu heilbrigðismála í kjördæmum landsins, sbr. ályktun Alþingis frá 7. febrúar 1991?
    2. Hvernig samrýmist áformaður niðurskurður fjárveitinga til héraðslæknisembættanna ályktun Alþingis um uppbyggingu stjórnsýsluþáttar heilbrigðisstofnana úti í landshlutunum og stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga, þar á meðal á sviði heilbrigðismála?``
    Þál. um skrifstofu heilbrigðismála sem samþykkt var á Alþingi 7. febr. 1991 er stórt framfaraspor í stjórnsýslu þessa málaflokks. Skrifstofunum er ætlað að sinna m.a. verkefnum héraðslækna, heilbrigðismálaráða og Tryggingastofnunar og fjárhagslegri og faglegri áætlanagerð og eftirliti með heilbrigðisþjónustu á svæðinu. Tími til undirbúnings styttist ef vinna á samkvæmt tillögunni því það þarf að huga að mörgu í svo stóru valddreifingarmáli. Í dag er markvisst unnið að stækkun sveitarfélaga, tilgangurinn er að gera sveitarfélögin sterkari og hæfari til að takast á við núverandi verkefni og taka að sér ný. Sveitarfélög verða þrátt fyrir sameiningu mörg hver fámenn og veikburða. Nokkrir málaflokkar eru þess eðlis að fjárhagslegri og faglegri áætlanagerð ásamt því að vera með faglega ráðgjöf og eftirlit er betur stjórnað í stærri einingum í þágu sameiginlega hagsmuna svæðisins. Þar má t.d. nefna héraðslæknisembættin, heilbrigðismálaráð og fræðsluskrifstofur. Þegar verkefni eru flutt yfir á sveitarfélögin verður að tryggja þeim tekjustofna og stjórnunarlega ábyrgð. Án þess að vantreysta sveitarstjórnum þá verður jafnhliða flutningi á svo mikilvægum og viðkvæmum málaflokk sem heilbrigðismálin eru að styrkja svæðisbundna ráðgjöf og eftirlitsstofnanir.
    Ráðið til að draga úr hinni miklu miðstýringu sem nú er í heilbrigðismálum er að koma fót skrifstofum heilbrigðismála, styrkja héraðslæknisembættin og koma á fót lögboðnum embættum héraðshjúkrunarfræðinga.
    Á miklum sparnaðar- og niðurskurðartímum er erfitt að koma með tillögu um fjölgun stöðugilda og stofa ný embætti. Í þessu tilfelli er að einhverju leyti hægt að tala um flutning verkefna og mannafla frá stofnunum í Reykjavík út í kjördæmi landsins.