Skrifstofur heilbrigðismála

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 17:46:53 (607)


[17:46]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það var ákveðin þversögn í svari hæstv. heilbrrh. hvað varðar afstöðuna til uppbyggingar á stjórnsýsluþætti héraðslæknisembættanna. Annars vegar sagði ráðherrann efnislega eitthvað á þessa leið: Á meðan það er á okkar höndum hér á Alþingi að ákvarða þessa hluti þá látum við bara litla peninga í það þannig að það sé ekki hægt að byggja upp þennan þátt. En svo sagði hann: Síðan ætlum við að láta sveitarfélögin fá þetta verkefni og þá verður blómabrekka fram undan. Það mun mjög treysta stjórnsýslu heima í héraði þegar sveitarfélögin eru komin með þetta. Það gerist ekki, virðulegur forseti, nema því aðeins að þeir hinir sömu sem halda þessu fram, hæstv. ráðherrar og hans fylgismenn og stuðningsmenn í ríkisstjórninni, fyrir utan nokkra Hafnfirðinga, láti fé til verkefnisins. Hvernig eigum við að trúa því og treysta, virðulegur forseti, að ráðherra sem ekki er reiðubúinn að berjast fyrir því að fá þá fram fé til þessa verkefnis meðan það er á hans höndum gerir það eftir að verkefnið er komið til sveitarfélaganna?