Skrifstofur heilbrigðismála

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 17:50:54 (610)


[17:50]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst gæta nokkurs misskilnings hjá hv. 5. þm. Vestf. hvað varðar fyrirhugaðan tilflutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Að minni hyggju getur sá tilflutningur aldrei orðið með þeim formerkjum að einn stóll sé fluttur frá ríki yfir til sveitarfélaga. Málið hlýtur öllu heldur að vera undir þeim formerkjum að tekjustofnar séu fluttir og síðan sé það undir sjálfsvald viðkomandi sveitarfélaga og sveitarstjórna sett hver forgangsröðun verkefna verður. Ég held að það eigi ekki nema undir almennum lögmálum að vera verkefni ríkisins að segja fyrir um það upp á punkt og prik hvernig það eigi að sinna þessari þjónustu, því þá er til lítils gengið í þessum efnum. Sjálfræði og sjálfdæmi heimamanna verður auðvitað að ráða þar ríkjum. Það finnst mér vera lykilatriði þegar menn ræða þessi mál.
    Hvað varðar stöðu þeirra mála í heilbrrn. og möguleika um tilflutning á ákveðnum þáttum heilbrigðismála, svo sem heilsugæslustöðva og fleiri þátta, öldrunarmálin hafa verið þar mjög til skoðunar, þá hygg ég að heilbrrn. sé allvel í stakk búið til þess að hefja viðræður við forsvarsmenn sveitarfélaganna í landinu um þennan tilflutning. Það eru að sönnu ekki nema þrjú ár frá því að heilsugæslan var að stórum hluta til í höndum heimamanna, sveitarfélaganna, og vissulega má segja að menn séu að snúa til baka frá því

ráðslagi. Ég held að það sé hins vegar skynsamlegt að horfa til þess að það hafi ekki verið rétt skref sem stigið var 1990 og það eigi að snúa til baka með heilsugæsluna og fleiri þætti og nefni ég þar kannski fyrst og síðast öldrunarþjónustu í sinni víðustu mynd.