Jöfnun húshitunarkostnaðar

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 17:53:42 (611)

[17:53]
     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 81 til iðnrh. svohljóðandi:
  ,,1. Hvernig hefur ríkisstjórnin fylgt fram stefnu sinni um jöfnun húshitunarkostnaðar meðal landsmanna?
    2. Hver var mismunur á verði einstakra orkuveitna til húshitunar 1. janúar 1991 og hver var þessi munur 1. október sl.?
    3. Hyggst ráðherra leggja fram á þessu þingi frv. til laga um jöfnun orkuverðs í landinu?``
    Tilefni þessarar fyrirspurnar eru þær umræður sem hér hafa verið á undanförnum þingum um jöfnun húshitunarkostnaðar og í hvítbók ríkisstjórnarinnar, Velferð á varanlegum grunni, eru áætlanir um að lækka húshitunarkostnað og jafna hann í áföngum á tveimur árum. Þau tvö ár eru liðin, þau voru liðin þann 1. júní sl. því 1. júní 1991 var sett fram aukið fjármagn til að jafna húshitunarkostnað. Í fjárlögum ársins 1993 eru 347 millj. kr. til niðurgreiðslu á rafhitun. Sama upphæð er í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár. Samkvæmt því sýnist mér að markmiði sínu nái ríkisstjórnin ekki. Um síðustu áramót gaf hæstv. iðnrh. þáv. það út að niðurgreiðslur yrðu auknar á raforku til húshitunar á íbúðarhúsnæði og kæmi það til framkvæmda frá síðustu áramótum. Það kom svo í ljós að þessar auknu niðurgreiðslur áttu að fara til að milda þá hækkun sem ríkisstjórnin var að ákveða með því að leggja virðisaukaskatt á húshitun. Hins vegar kemur engin aukning samkvæmt fjárlagafrv. eða fjáraukalögum í ár. Ég fæ ekki séð að neitt hafi breyst í þessum málum síðan 1991. Það væri því fróðlegt að fá að heyra hvernig þessi mál standa nú og hvernig staðan var áður en ríkisstjórnin tók við og hvernig sagan er sem sagt í dag. Hefur eitthvað áunnist að mati hæstv. iðnrh. í jöfnun húshitunarkostnaðar?
    Í till. til þál. sem var lögð fyrir Alþingi veturinn 1990--1991 stendur að til þess að ná jöfnun húshitunarkostnaðar þurfi ríkissjóður að leggja til þeirra mála 470 millj. á þávirði árið 1994 sem mundi þá líklega vera rúmar 500 millj. með verðlagsuppfærslu.
    Ég vænti því svars hjá hæstv. ráðherra við þessum spurningum sem ég hef nú borið fram.