Jöfnun húshitunarkostnaðar

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 17:56:42 (612)


[17:56]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrsta fsp. hv. þm. hljóðar svo: ,,Hvernig hefur ríkisstjórnin fylgt fram stefnu sinni um jöfnun húshitunarkostnaðar meðal landsmanna?``
    Svarið er að eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar var að auka niðurgreiðslur á rafmagni til hitunar íbúðarhúsnæðis frá 1. júní 1991. Hinn 1. jan. sl. voru niðurgreiðslurnar auknar enn frekar. Það er misskilningur hjá hv. þm. að þar hafi aðeins verið um að ræða

jöfnun á virðisaukaskatti. Þar var um að ræða viðbótarniðurgreiðslur á hitun íbúðarhúsnæðis og það gerðist um leið og Landsvirkjun jók afslátt sem fyrirtækið veitir á raforku til húshitunar. Nú er niðurgreiðsla ríkissjóðs 1 kr. og 12 aurar á kwst. og afsláttur Landsvirkjunar er 26 aurar á kwst. og er þak á niðurgreiðslunum miðað við 30.000 kwst. á ári. Fyrir 1. júní 1991 til samanburðar var niðurgreiðsla ríkissjóðs 63 aurar á kwst. og afsláttur Landsvirkjunar 16 aurar á kwst. fyrir allt að 40.000 kwst. á ári. Í krónum talið þýðir þetta lækkun á húshitunarkostnaði hjá öllum notendum með meira en 30.000 kwst. ársnotkun, um 41.400 kr. á ári. Fyrir 1. júní 1991 var þessi lækkun 23.700 kr. á ári miðað við 30.000 kwst. og 31.600 kr. ef notkunin var 40.000 kwst. á ári eða meira. Með öðrum orðum þá hafa niðurgreiðslur á raforku til húshitunar frá 1. júní 1991 aukist á bilinu 9.800 til 17.700 kr. á ári fyrir meðalstórt íbúðarhúsnæði.
    Í október á sl. ári yfirtók ríkissjóður hluta af skuldum Hitaveitu Eyra og liðkaði þannig fyrir stofnun byggðasamlags um rekstur hitaveitna og rafveitna á Eyrarbakka, Stokkseyri og Selfossi. Í júní sl. yfirtók ríkissjóður hluta af skuldum Hitaveitu Suðureyrar og liðkaði fyrir kaupum Orkubús Vestfjarða á veitunni m.a. með því að fella úr gildi ákvæði í samningi ríkissjóðs og orkubúsins frá 1989 um greiðslu orkubúsins af 70% af framlegð frá rekstri til ríkissjóðs. Báðir þessir samningar hafa, fyrir utan það sem hér hefur verið talið upp, haft í för með sér lækkun orkuverðs, annars vegar á Eyrarbakka og Stokkseyri og hins vegar á Suðureyri.
    Fyrrv. iðnrh. skipaði í febrúar sl. að höfðu samráði við fjmrh. nefnd til að gera úttekt á fjárhagsstöðu nokkurra hitaveitna og gera tillögur um leiðir til að lækka kostnað við húshitun enn frekar á veitusvæði þeirra. Ríkisstjórnin hefur því fylgt stefnu sinni um að stuðla að lækkun húshitunarkostnaðar þar á landinu sem hann er hæstur.
    Í öðru lagi spyr hv. þm. hver sé mismunur á verði einstakra orkuveitna til húshitunar 1. janúar 1991 og hver þessi munur hafi verið 1. október sl. Svarið er:
    Hinn 1. janúar 1991 kostaði 2,07-falt meira að hita vísitöluhúsið með rafmagni frá RARIK en heitu vatni miðað við vegið meðalverð hitaveitna. Hinn 1. október 1993 var þetta hlutfall 1,91%. Hinn 1. janúar 1991 kostaði 2,58-falt meira að hita vísitöluhúsin með rafmagni frá RARIK en heitu vatni frá Hitaveitu Reykjavíkur. Hinn 1. október 1993 var þetta hlutfall 2,14. Hinn 1. janúar 1991 kostaði 1,95-falt meira að hita vísitöluhúsið með rafmagni frá Orkubúi Vestfjarða en heitu vatni miðað við vegið meðalverð hitaveitna. Hinn 1. október 1993 var þetta hlutfall 1,64. Hinn 1. janúar 1991 kostaði 2,42-falt meira að hita vísitöluhúsið með rafmagni frá Orkubúi Vestfjarða en heitu vatni frá Hitaveitu Reykjavíkur. Hinn 1. október 1993 var þetta hlutfall 1,84.
    Þessar tölur sýna að það hefur náðst verulegur árangur í að jafna orkuverð í landinu þó svo ekki sé jafnlangt gengið og æskilegt hefði verið.
    3. Er fyrirhugað að leggja fram á þingi frv. til laga um jöfnun orkuverðs? Svarið er að það er ekki í bígerð að leggja slíkt frv. fram, enda er það þarflaust þar sem iðnrh. hefur í höndunum öll tæki til þess að auka jöfnun orkuverðs svo fremi Alþingi hækki framlag til þeirra hluta á fjárlögum. Það er fjárlagatalan sem ræður hversu stór skref hægt er að stíga til orkujöfnunar
    Virðulegi forseti. Ég vona að þessi svör séu fullnægjandi við fyrirspurnum hv. þm.