Vatnaflutningar til Fljótsdals

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 18:21:50 (622)


[18:21]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegur forseti. Það er fólginn verulegur misskilningur hjá sumum hv. þm. á því hvernig að málum er staðið. Það eru nú þegar til á Íslandi ýmsir fullhannaðir virkjunarkostir sem munu fullnægja og vel það raforkuþörf landsmanna eins og hún er fyrirsjáanleg, jafnvel þó það hlypi það happ á okkar snæri að við fengjum álver í náinni framtíð. Það er enginn skortur á slíkum fullhönnuðum virkjunarkostum sem full sátt er um í landinu. Það sem menn eru hins vegar að skoða eru hugsanlegir kostir fram í tímann. Menn eru að athuga hvort það sé rétt að stefna að því að efna til stórrar og fjárfrekrar virkjunar á Austurlandi. Auðvitað er ekki hægt að skoða líkleg umhverfisáhrif af slíkum valkosti nema valkosturinn sé skilgreindur. Það verður að vera eitthvað til að rannsaka umhverfisáhrifin af. Það sem menn eru einfaldlega að gera er að skoða þá möguleika sem þarna eru fyrir hendi og reyna að velta því fyrir sér hver umhverfisleg áhrif yrðu af hverjum kostinum fyrir sig. Fljótsdalsvirkjun er fullhönnuð þannig að það liggur fyrir hvaða kostur þar er í boði ef eingöngu yrði virkjað í Fljótsdal það vatn sem þar fellur um í dag. Það eru líka hugmyndir uppi um virkjun Jökulsár á Brú sérstaklega út af fyrir sig, án þess að steypa nokkrum vötnum saman. En ég fullyrði að það er ekki verið að athuga neitt mál sem er á ákvörðunarstigi og til þess að ganga endanlega úr skugga um það þá vil ég upplýsa að á fundi sem ég átti með stjórn Landsvirkjunar nú nýlega var ákveðið að við, þ.e. iðnrn. og Landsvirkjun, mundum óska eftir samstarfi við umhvrn. um það mál, kynntum fyrir heimamönnum á Norður- og Austurlandi þær hugmyndir sem menn eru að ræða um hugsanlegar virkjanir þar einhvern tímann í framtíðinni. En það eru mörg ár í það, ef það kemur einhvern tímann upp, að við höfum þörf fyrir rúmlega 600 mw virkjun eins og sú risavirkjun yrði sem reist yrði á Austurlandi.