Rannsóknir á umhverfisáhrifum vatnaflutninga

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 18:24:38 (623)

[18:24]
     Fyrirspyrjandi (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í þeirri fyrirspurn sem ég bar fram hér áðan og sem nauðsynlegt er að nálgast nánar frá sjónarhóli umhverfismála, að það hafa farið fram allítarlegar rannsóknir sem tengjast virkjunaráformum og vatnaflutningum Jökulsár á Fjöllum til Fljótsdals. Það sem vekur athygli við þessar rannsóknir er að þar er verið að huga að ýmsum tiltölulega staðbundnum umhverfisvandamálum sem tengjast ákveðnum virkjunarkostum og rannsóknaraðilum hafa verið settar nokkuð þröngar skorður þar sem þeir eru beðnir að raða upp í forgangsröð virkjunarkostum og lýsa þeim umhverfisáhrifum sem þessir virkjunarkostir hafa hver fyrir sig. Er hægt að geta þess að í skýrslunni er t.d. fjallað sérstaklega um gæsavarp og hreindýr. Hitt er svo annað mál að rannsóknaraðilum hefur ekki enn sem komið er verið falið, svo mér sé kunnugt, að skoða grundvallaráhrif sem vatnaflutningar milli héraða kæmu til með að hafa á náttúru landsins. Þá á ég sérstaklega við t.d. áhrif sem flutningur Jökulsár á Fjöllum gæti haft í Öxarfirði, á landbrot þar, svo dæmi sé tekið, eða áhrifin sem gætu komið fram ef öllu þessu vatnsmagni væri veitt yfir í Fljóstdal. Það kann að vakna sú spurning hvort ekki sé eðlilegt að taka grundvallarafstöðu til þess hvort vatnaflutningar af þessu tagi eru í samræmi við heildarsjónarmið í umhverfismálum. Það er rétt að geta þess að nokkrar þjóðir hafa brennt sig illilega á því að leyfa slíka röskun á náttúrunni sem hér er um að ræða. Vegna þess að við embætti umhvrh. hefur nú tekið mjög vaskur maður og orðhagur, en almennt líka vegna þess hvernig þetta mál er vaxið, burt séð frá hver gegnir þessu mikilvæga embætti, þá hef ég leyft mér að leggja fyrir hæstv. umhvrh. eftirfarandi fyrirspurnir:
    1. Hve miklar rannsóknir hafa farið fram í tengslum við hugmyndir um að veita Jökulsá á Fjöllum til Fljótsdals til raforkuframleiðslu, á umhverfisáhrifum sem slíkir vatnaflutningar mundu hafa á öræfum norðan Vatnajökuls, í Kelduhverfi og Öxarfirði og í Fljótsdal og Héraðsflóa?
    2. Telur ráðherra ekki rétt, með tilliti til framangreindra orkunýtingaráforma, að Alþingi taki hið fyrsta afstöðu til þess hvort það samrýmist almennum markmiðum þjóðarinnar í umhverfismálum að ráðast í vatnaflutninga af því tagi sem hér um ræðir?