Rannsóknir á umhverfisáhrifum vatnaflutninga

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 18:32:29 (625)


[18:32]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Það kom fram í umræðu áðan hjá hæstv. iðnrh. að það væri búið að undirbúa nægjanlega virkjunarkosti fyrir fyrirsjáanlega framtíð okkar Íslendinga hvað orkuþörf áhrærir, jafnvel þá orkuþörf sem fyrir hendi væri ef við yrðum svo heppnir að fá hér eitt álver. ( Umhvrh.: Eða tvö.) Eða tvö, segir hæstv. umhvrh. Ég leyfi mér einmitt að efast um að það sé búið að kanna nægilega marga virkjunarkosti til að sjá fyrir orkuþörf tveggja álvera. En þetta eru þó alltént allumfangsmiklar athuganir sem hafa farið fram.
    En miðað við þá umræðu og þá miklu stefnumörkun sem farið hefur fram á vegum ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum væri þá ekki ráð að bera alla þessa virkjunarkosti og þessar virkjunarathuganir saman við hugmyndir okkar í umhverfismálum og þá framtíð sem við hugsanlega sjáum fyrir okkur sem hreinasta land Evrópu upp úr aldamótum og hvernig það allt saman fer saman?