Rannsóknir á umhverfisáhrifum vatnaflutninga

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 18:37:11 (628)


[18:37]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka þær ágætu umræður sem hérna fara fram. Ég vil fyrst byrja að vísa því gersamlega á bug sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson las út úr mínum orðum. Ég sagði einmitt hið öfuga hér rétt áðan. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi alls ekki að taka ákvörðun um það að ráðast í virkjanir eingöngu út frá arðsemissjónarmiðum. Það eru komin ný sjónarmið inn í þá mynd í dag, það eru umhverfissjónarmiðin. Þau nýju viðhorf sem hafa verið að grafa um sig kristölluðust einmitt í orðum hv. þm. Árna M. Mathiesens hér í fyrri umræðu áðan og er í raun kjarni þessa máls. Mér finnst sem sagt eins og honum að það eigi ekki að ráðast í ákvarðanir um svona virkjanir fyrr en búið er að fara í gegnum hvað er hagkvæmast frá sjónarmiði náttúruverndar og umhverfisverndar, hvernig það fellur að náttúrunni.
    Það er líka annað sem er nauðsynlegt að komi hérna fram. Þegar menn fara þá leið að ákveða fyrst virkjunarstæðin og fara síðan í umhverfismat samkvæmt nýjum lögum þá kann sú staða að koma upp, fræðilega a.m.k., að þegar upp er staðið þá komist menn að þeirri niðurstöðu að af umhverfisástæðum sé ekki rétt að gera þetta. Þá er kannski búið að leggja í gríðarlegan kostnað við rannsóknirnar. Það er af þessum sökum sem ég tek undir með hv. þm. Árna M. Mathiesen og raunar hv. þm. Tómasi Inga Olrich líka. Menn eiga að fara hina leiðina, þið kannist nú við það hv. framsóknamenn að fara hina leiðina. Að öðru leyti vil ég líka aðeins segja það út frá því að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson drepur hér á mótmæli náttúruverndarsamtaka Austfirðinga. Ég get ekki annað en sagt það að ég hef mikla samúð með þeim viðhorfum sem koma fram í þeirri ályktun og sem ég hef einmitt séð. Maður verður auðvitað að velta því fyrir sér hvort það sé í rauninni leyfilegt að fara í svona gríðarlegar framkvæmdir sem hafa áhrif á stórkostleg landsvæði eins og við höfum verið að ræða hér um. Ég hef miklar efasemdir um það.