Stefnumörkun ríkisstjórnarinnar vegna átaks í sameiningu sveitarfélaga

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 18:39:58 (629)

[18:39]
     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Þessar vikurnar er mjög á dagskrá umræða um sameiningu sveitarfélaga og hefur ríkisstjórnin m.a. látið það mál til sín taka. Það er öllum ljóst sem um þessi mál fjalla að samgöngur eru snar þáttur í þeirri atburðarás sem hrint hefur verið af stað og afstaða manna til þeirra tillagna sem fyrir liggja mun að sjálfsögðu að miklu leyti ráðast af því hvernig fyrir samgönguþættinum er séð. Ég minni á að það varð niðurstaða svonefndrar sveitarfélaganefndar að greiðar samgöngur væru forsenda sameiningar. Ég minni líka á að það kemur fram í forsendum sumra umdæmanefnda að ráðist verði í tiltekin verkefni í samgöngumálum. T.d. má nefna að umdæmanefndin á Suðurlandi bendir á tvö verkefni sem eru forsenda að tillögugerð um Árnessýslu að hluta til, þ.e. efri hluta hennar. Það er brú á Hvítá við Hvítárholt og vegurinn yfir Gjábakkahraun en hvorugt þessara verkefna eru á vegáætlun. Enn fremur má nefna að umdæmanefndin á höfuðborgarsvæðinu gerir tillögu um sameiningu Reykjavíkur, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar, Kjalarneshrepps og Kjósarhrepps og ein af forsendum þeirrar sameiningar er ráðist verði í vegtengingu á næstu 10 árum milli Geldinganess, Gunnuness og Kollafjarðar og enn fremur að Kjósarskarðsvegur verði lagður bundnu slitlagi. En ég hygg að ég fari rétt með að bæði þessi verkefni eru utan vegáætlunar.
    Í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í síðasta mánuði kemur fram að við ákvörðun um fjárveitingar og forgangsröðun framkvæmda í samgöngumálum á næstu árum verði m.a. tekið tillit til sameiningar sveitarfélaga eins og lesa má í fréttatilkynningu frá félmrn. og í sérstakri auglýsingu sem um þetta hefur verið gerð og birt í dagblöðum kemur fram að sameinuð sveitarfélög njóti forgangs um fé til samgöngubóta. Og af þessu öllu saman, áformum og yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar er eðlilegt að upp vakni sú spurning hvort ríkisstjórnin sé að boða að breyta þeirri vegáætlun sem samþykkt var sl. vor. Ég hef því, virðulegi forseti, leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 112 sem er svohljóðandi:
    ,,Felst í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá síðasta mánuði, um það að við ákvörðun um fjárveitingar og forgangsröð framkvæmda í samgöngumálum á næstu árum verði m.a. tekið tillit til sameiningar sveitarfélaga, að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir breytingum á nýsamþykktri vegáætlun 1993--1996 í ljósi úrslita kosninganna 20. nóv. nk. og ef svo er, hvaða breytingum?``