Stefnumörkun ríkisstjórnarinnar vegna átaks í sameiningu sveitarfélaga

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 18:43:47 (631)


[18:43]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Þessi fsp. lýtur að gerð vegáætlunar og þess hvert tillit eigi að taka til sameiningar sveitarfélaga og þess að reyna að tengja saman byggðarlög og atvinnusvæði. Ég vil svona til þess að reyna að skýra málið nefna nokkur dæmi um framkvæmdir sem unnið hefur verið að eða lokið nú á síðustu árum sem öll stuðla að því víkka út atvinnusvæðin og eru liður í því að sveitarfélög geti sameinast. Brú á Ölfusárósa milli Eyrarbakka og Þorlákshafnar, vegagerð á Mýrum, vegagerð um Hálfdán sem enn er í gangi og gjörbreytir ástandi þar vestra. Nú eru uppi hugmyndir um að stofna þar nýtt hafnasamlag og ég veit ekki betur en fyrir því sé nokkurt fylgi, kannski mikið, að sameina sveitarfélög í Vestur-Barðastrandarsýslu vegna þeirra góðu samgangna sem komnar eru á landi en auðvitað bíða þar önnur verkefni, jarðgöng undir Breiðadals- og Botnsheiðar ásamt með vegagerð um Óshlíð. Það er verið að ræða um það að bjóða annan vegskála út nú á þessu hausti sem auðvitað tryggir veginn milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Einnig má nefna Ólafsfjarðarveg ásamt jarðgöngum um Ólafsfjarðarmúla. Það var nokkuð rætt um það hér á Alþingi þegar ákvörðun var tekin um það á síðasta hausti að hefja þá framkvæmd þó hún væri ekki inn á vegáætlun. Það væri einmitt mjög brýnt til þess að hægt væri að stofna hafnasamband við utanverðan Eyjafjörð og leggja grunn að því að Ólafsfjarðardalur gæti sameinast í eitt sveitarfélag ef íbúar á þeim slóðum vildu það eða yrði hluti af stærri heild. Tenging Héraðs við Reyðarfjörð og Eskifjörð með endurbyggingu vegar á Fagradal og raunar áfram til Norðfjarðar með endurbyggingu vegar milli Eskifjarðar og Norðfjarðar.
    Af verkum á gildandi vegáætlun sem ekki eru hafnar nægir að nefna vegagerð um Gilsfjörð, brú á Vesturós í Skagafjarðarsýslu og brú á Jökulsá á Dal. Jafnframt liggur fyrir skýrsla um undirbúning jarðgangagerðar á Austurlandi.
    Auk þessa verður að benda á að unnið er að ýmsum þýðingarmiklum tengingum landshluta og má þar nefna endurbyggingu vegar yfir Öxnadalsheiði og gerð brúar á Kúðafljót ásamt tilheyrandi vegagerð, en þeim verkum lýkur væntanlega báðum á næsta ári. Þá

eru framkvæmdir hafnar við að koma veginum milli Norðurlands og Austurlands í viðunandi horf. Fyrir þessum vegi er mikill áhugi og stendur til að þingmenn kjördæmanna hittist ásamt fulltrúum sveitarfélaga.
    Þýðingarmikið atriði í vegasamgöngum er sú þjónusta sem veitt er á vegakerfinu og þá ekki hvað síst vetrarþjónusta. Þessi þjónusta hefur á undanförnum árum farið vaxandi og batnandi og hefur verið lögð sérstök áhersla á að hún stuðlaði að myndun þjónustu- og atvinnusvæða. Nú er unnið að endurskoðun á reglum um snjómokstur og er sennilegt að þjónusta á því sviði verði enn aukin.
    Dæmi um aðrar vegatengingar, sem eflaust verður ráðist í á næstu árum og bæta munu tengingar byggðar og gætu einmitt verið liður í því að fylgið vaxi við að sameina sveitarfélög, eru brú yfir Hvítá hjá Flúðum og endurbygging fjallvega á Snæfellsnesi. Ef við lítum til Norður-Þingeyjarsýslu og Kelduhverfis, þá vaknar auðvitað spurningin um það hvernig hægt sé að tengja Þistilfjörð Öxarfirði með nýjum vegi yfir Öxarfjarðarheiði eða yfir Stíg. Vegur yfir Tjörnes er að sjálfsögðu nauðsynlegur tengiliður milli norðursýslu og suðursýslu ef hugmyndin er að þar verði eitt sveitarfélag, en á hinn bóginn ef horft til þess að Húsavík ásamt allri Suður-Þingeyjarsýslu verði eitt sveitarfélag, liggur beint við að nauðsynlegt verður að huga að því hvernig hægt verði að leggja bundið slitlag á Kísilveginn sem svo er kallaður þannig að við getum bent á ótal verkefni sem eru mjög kostnaðarsöm. Aðalatriðið í þessu máli er að í kjölfar þessara kosninga og þeirra nýju viðhorfa sem munu koma í kjölfar þeirra nú á þessum vetri fram til vors er eðlilegt að sveitarstjórnarmenn og þingmenn hinna ýmsu kjördæma hittist áður en til endurskoðunar vegáætlunar kemur og ræði um það hvort sameining sveitarfélaga valdi því að nauðsynleg áherslubreyting verði að eiga sér stað.