Reglur um þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 18:55:10 (635)

[18:54]
     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Lög frá 30. mars 1987 tengjast alþjóðasamþykkt um þjálfun, skírteini og vaktstöðu sjómanna frá 1978 og gerð var á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar IMO og samþykkt á ráðstefnu sem haldin var í London 14. júní til 7. júlí 1978. Tilgangur alþjóðasamþykktarinnar er að áhafnir allra kaupskipa uppfylli lágmarkskröfur um þjálfun, menntun og starfsskyldur sem varða öryggi kaupskipa með það að markmiði að tryggja eftir megni öryggi allra skipa og sjófarenda. Tilefni samþykktarinnar var ekki síst að mikils misræmis gætti í menntunar- og þjálfunarkröfum sjómanna á kaupskipum hjá einstökum aðildarríkjum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Í samþykktinni er fjallað um menntun og þjálfun yfirmanna, svo og undirmanna er standa vaktir í brú eða vélarrúmi og þjálfun til nánari tiltekinna starfa.
    Í samþykktinni er einnig að finna margháttuð fyrirmæli til aðildarríkja, svo sem samræmda útgáfu atvinnuskírteina yfirmanna og annarra hæfnisskírteina til þeirra starfa sem krafist er sérstakrar þjálfunar, samræmt hafnareftirlit með erlendum skipum er koma í höfn aðildarríkja og upplýsingamiðlun til Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Í samþykktinni eru enn fremur ákvæði um heimildir aðildarríkja til að stöðva erlend skip í höfnum uppfylli þau ekki ákvæði samþykktarinnar, svo og heimild til að veita tímabundið undanþágur til einstakra sjómanna á kaupskipum sem fullnægja ekki að öllu leyti lágmarkskröfum.
    Kröfur samþykktarinnar um menntun og þjálfun sjómanna eru fyrst og fremst miðaðar við nýliða, þ.e. þá sjómenn sem hefja störf eftir gildistöku samþykktarinnar, svo og þá sem öðlast hafa tiltölulega stuttan reynslutíma á sjó. Fyrir sjómenn sem öðlast hafa tilskylda reynslu gilda aðrar reglur, þar sem litið er svo á að við tiltekna reynslu hafi menn

öðlast fullnægjandi hæfni.
    Samþykktin tók gildi þann 28. apríl 1984 og hafa um 85 ríki staðfest þessa samþykkt. Með þetta í huga legg ég hér fyrir samgrh. tvær spurningar:
  ,,1. Hafa verið settar reglur til að framfylgja alþjóðasamþykkt um þjálfun skírteini og vaktstöðu sjómanna á kaupskipum (STCW, 1978), sbr. 1. gr. laga nr. 47/1987?
    2. Hafa verið settar reglur um heildarmönnun kaupskip í samræmi við ályktun A. 481 sem samþykkt var á 12. þingi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar árið 1981, sbr. 2. gr. laga nr. 47/1987?``