Reglur um þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 18:57:55 (636)

[18:57]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég tel að þessi fyrirspurn lúti að mjög þörfu máli og þess vegna fullkomlega eðlilegt að hún sé borin fram.
    Markmið þeirrar samþykktar sem hér er vitnað til er í fyrsta lagi að tryggja eftir megni öryggi skipa og áhafna og í öðru lagi að samræma menntun og þjálfun sjómanna og mönnun skipa.
    Fyrr á þessu ári skipaði ég nefnd til þess að fara yfir og leggja fram frv. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna og vélstjóra og taldi rétt að sú nefnd kæmi einnig inn á þau atriði sem nauðsynlegt er að breyta íslenskri löggjöf til þess að unnt sé að fullnægja framkvæmd þeirrar alþjóðasamþykktar sem hér er vitnað til. Formaður þeirrar nefndar er Sveinn Snorrason hæstaréttarlögmaður en ásamt honum eiga sæti í nefndinni fulltrúar hagsmunaaðila; kaupskipa, farmanna, háseta og yfirmanna.
    Ég geri mér vonir um það að niðurstaða þessarar nefndar geti legið fyrir nú í haust ekki síðar en í næsta mánuði og verður þá ekkert því til fyrirstöðu að leggja það frv. fram hér á Alþingi sem nefndin verður sammála um en frv. sem lýtur að þessu efni hefur áður verið lagt fyrir Alþingi en ekki náð fram að ganga. Ég tel sem sagt að það þurfi að afla nauðsynlegra lagaheimilda og þær muni liggja fyrir nú á þessum vetri þannig að unnt verði að fullgilda þessa alþjóðasamþykkt.
    Síðari hluti fyrirspurnarinnar lýtur að því hvort settar hafa verið reglur um heildarmönnun kaupskipa í samræmi við samþykkt Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Slíkar reglur eru nú í undirbúningi. Mönnunarskírteini samkvæmt ályktun IMO A. 481 sem hér er spurt um eru hins vegar gefin út af mönnunarnefnd sem starfar undir samgrn. Þau mál eru einnig til athugunar hjá þeirri nefnd sem ég vísaði áður til og ég er þess fullviss að málið komi fyrir Alþingi á allra næstu vikum, ekki síðar en í næsta mánuði.