Reglur um þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 19:00:56 (637)


[19:00]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. 16. þm. Reykv. fyrir þessa fsp. en ég verð að játa að ég átta mig ekki alveg á um hvað er verið að tala. Ég átta mig ekki alveg á hvort þetta varðar öll þau kaupskip sem til Íslands koma og hér leggjast að bryggju eða hvort þetta varðar einungis íslensk kaupskip, ég hef kannski ekki hlustað á hv. þm. nógu gaumgæfilega. Ég vil aðeins minna á að okkar eigin kaupskip sem er búið að setja undir erlenda þægindafána hafa auðvitað enga möguleika á að framfylgja þessum reglum þar sem við vitum öll að hundruð sjómanna á þessum skipum fullnægja ekki á nokkurn hátt alþjóðlegum samþykktum um þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna. Þetta vitum við ósköp vel og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra hvað sé gert þegar þessi ágætu skip okkar, sem sigla undir erlendum fánum, koma hingað því öðru hverju munu þau koma hér að bryggju þó þau sigli mestan part milli annarra landa. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra: Er eitthvað farið að þessum kröfum?