Fyrirspurn um listaverkakaup Seðlabankans

21. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 13:37:02 (640)

[13:37]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Eins og getið var um hér áðan hafa borist skrifleg svör við tveim fyrirspurnum sem ég hef borið fram. Annað á þskj. 140 og er svar við fsp. til menntmrh. um listaverkakaup Listasafns Íslands sl. fimm ár. Þar er fyrirspurnum mínum svarað og ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir það.
    Svar við hinni fsp. liggur fyrir á þskj. 132 sem var fsp. til hæstv. viðskrh. um listaverkaeign Seðlabanka Íslands og þar kveður við annan tón. Þar er einungis svarað þrem af fimm fyrirspurnum mínum og við því fæst ekki svar af hverjum verkin 193 voru keypt og hvenær og hvert var kaupverð hvers listaverks. Þetta vefst hins vegar ekkert fyrir Listasafni Íslands að setja á þingskjal. Í svari segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á listaverkaskrá bankans kemur ekki fram kaupverð listaverka, af hverjum þau hafa verið keypt og hvenær, þótt um það séu að sjálfsögðu heimildir í bókhaldsgögnum bankans sem ekki hefur verið unnið úr.``
    Nú veit ég ekki, hæstv. forseti, hvort það eru ár eða áratugir sem þau bókhaldsgögn hafa verið án úrvinnslu en eftir stendur að þetta svar er ekki boðlegt þegar þingmaður beinir fsp. til hæstv. viðskrh. um svo sjálfsagt mál, sem varðar auðvitað þjóðina alla, af hverjum, hvenær og fyrir hvað mikið verð 193 listaverk hafa verið keypt, mörg hver eftir mestu meistara íslensku þjóðarinnar. Ég vil því mælast til þess, hæstv. forseti, að gengið verði eftir því við hæstv. viðskrh. að þingmanni sé svarað þegar fsp. er lögð fram.