Fyrirspurn um listaverkakaup Seðlabankans

21. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 13:40:00 (641)

[13:40]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Þegar athugasemd kemur frá þingmanni eins og kom hér áðan þá er að sjálfsögðu ekki verið að tala við veggina, það er verið að tala við hæstv. forseta þingsins. Spurningin er: Telur forseti óeðlilegt að svara þingmanninum hvort eftir verði leitað eða hvort þögnin ein eigi að geyma þessa niðurstöðu?
    Ég tel eðlilegt að hæstv. forseti veiti svar undir slíkum kringumstæðum og ég veit að þeir sem hafa orðið fyrir svipaðri reynslu að fá ekki svar við fyrirspurnum þeir hljóta að spyrja: Er það niðurstaðan að það sé marklaust að leggja fram fyrirspurnir á þennan hátt, ráðherrar hæstv. telji sér einfaldlega ekki skylt að sjá til þess að þeim sé svarað?