Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

21. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 13:46:09 (643)

[13:46]
     Frsm. sjútvn. (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, sem liggur fyrir á þskj. 121.
    Með lögum nr. 54 16. maí 1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, sem tóku gildi 22. júní í fyrra var reynt að stemma stigu við þeirri þróun að fullvinnsluskipum fjölgaði óhóflega á Íslandsmiðum. Þá var með lögunum einnig komið til móts við þær skoðanir að ekki hafi af opinberri hálfu verið gerðar nægar kröfur til nýtingar hráefnis og vinnsluaðstöðu um borð í þessum skipum. Til að ná þessum markmiðum var í lögunum farin sú leið að gera afar strangar kröfur varðandi nýtingu á öllum fiski, fiskhlutum og fiskúrgangi hinna svonefndu fullvinnsluskipa. Þessum skipum er óheimilt með öllu að fleygja fiskúrgangi fyrir borð og óheimilt er að veita skipum vinnsluleyfi nema aðstaða sé um borð til að fullnægja þessum kröfum og nýta aflann með fullnægjandi hætti. Skipum sem stunduðu fullvinnslu fyrir gildistöku laganna var með bráðabirgðaákvæði veittur aðlögunarfrestur til 1. sept. 1996 en skip sem hófu fullvinnslu eftir gildistöku laganna þurftu strax að fullnægja ýtrustu kröfum. Aðlögunarfresturinn var einnig látinn ná til nýrra fullvinnsluskipa sem samið hafði verið um smíði eða kaup á með bindandi hætti fyrir 10. nóv. 1991, enda væri smíðin það langt komin að breytingum til samræmis við kröfur laganna yrði ekki við komið án verulegrar röskunar og kostnaðarauka.
    Með framangreindum lögum var mörkuð sú stefna að allur afli skuli fullunninn. Margir halda því hins vegar fram að eins og málum er nú háttað standi verð afurða ekki undir þeirri fjárfestingu og kostnaðarauka sem fylgir því að hirða allan fiskúrgang, þar á meðal innyfli, og eins þurfi að þróa frekar tækni varðandi geymslu og nýtingu úrgangs, t.d. í formi meltu áður en rétt sé að skyldubinda slíka vinnslu. Með hliðsjón af þessu hyggst sjútvrh. á næstu vikum skipa starfshóp til að endurmeta hvort þau tímamörk sem lögin nr. 54 frá síðasta ári setja til að ná markmiði sínu séu raunhæf. Verður frv. þar að lútandi væntanlega lagt fyrir Alþingi. Á meðan það starf stendur yfir þykir hins vegar ástæða til að endurskoða kröfur þær sem þessi lög gera til fullvinnslu skipa sem samið hafði verið um kaup eða smíði á á tímabilinu 10. nóv. 1991 til gildistökudags laganna 22. júní 1992 þannig að þau njóti sama aðlögunartíma og eldri fullvinnsluskip. Með það í huga er þetta frv. flutt. Jafnframt er lagt til að undanþága nái einnig til eldri skipa sem samið hafði verið um breytingar á fyrir gildistöku laganna. Vitað er aðallega um tvö skip sem undir þetta ákvæði falla en það eru Otto Wathne NS 90 og Sléttanes ÍS 108. Hins vegar var ekki samið um breytingar á Ásgeiri Frímanns ÓF 21 heldur var eingöngu um kaup á flökunarvél að ræða samkvæmt upplýsingum sem bárust frá sjútvrn. eftir að þessu frv. hafði verið útbýtt með þessari greinargerð sem henni fylgdi.
    Útgerðir þessara skipa hafa talið á sig hallað með því að láta hinar ströngu kröfur ná til skipa sem búið var að semja um kaup eða breytingar á og því sýnist ástæða til eins og málum er nú háttað að breyta bráðabirgðaákvæði laganna nú þegar og láta aðlögunarreglurnar einnig ná til þeirra skipa eins og orðalag þessa frv. gerir ráð fyrir. Frv. er flutt af sjútvn. og stendur hún öll að flutningi frv. og með vitund og samþykki sjútvrn. og sjútvrh.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. En þar sem þetta frv. er flutt af nefnd er óþarfi að vísa því til nefndar og því legg ég til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr.