Fjáraukalög 1993

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 15:33:48 (656)


[15:33]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst um yfirfærslu á heimildum. Þetta er alveg hárrétt sem kemur fram hjá hv. þm. að við verðum þá að horfa á málið alla leið. Nú gerist það til að mynda á næsta ári að það verða

færðar heimildir af þessu ári til næsta árs, við skulum segja að það séu 400--500 millj. sem eru ekki í fjárlögum næsta árs. Verði þær greiddar á næsta ári, þá munu þær koma til gjalda og færast sem greiðslur og koma fram í afkomu næsta árs þannig að við verðum að horfa á þetta í þessum tíma.
    Með sama hætti vil ég nefna þetta með Landsbankann, að við leggjum áherslu á greiðslugrunninn og við munum að sjálfsögðu færa til gjalda þegar greiðslur fara fram. En ég minni á að það er óvíst hvort nokkurn tíma þarf að greiða af þessu bréfi sem er til langs tíma og við það er miðað í bankanum að þess þurfi ekki. Það er verið að taka þar á málum. Bankinn var ekki í neinni hættu. Það eina sem var verið að gera var að tryggja það að bankinn sem slíkur stæðist svokallaðar BIS-reglur og um væri að ræða 8% eiginfjárhlutfall í bankanum. Þess vegna þurfti að leggja þennan pappír fram, en þegar greiðslur koma af pappírnum þá munu þær að sjálfsögðu sjást á fjárlögum en fyrr ekki. Það er hins vegar rétt sem kom fram hjá hv. þm. að Ríkisendurskoðun vill hafa annan háttinn á, en það breytir ekki samt greiðslugrunnsniðurstöðu fyrir þetta ár.