Fjáraukalög 1993

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 16:05:40 (663)


[16:05]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get satt að segja ekki svarað fyrirspurninni fullkomlega því það er helst á færi menntmrh. og þeirra sem um málið fjalla. Hins vegar hygg ég að það sé hægt að nota kvikmyndir þótt í þeim séu ákveðin atriði sem verður að fara varlega með ef fullorðinn aðili, kennari eða einhver slíkur, skoðar myndirnar með börnunum. Ég man eftir því og ég veit að hv. þm. man ugglaust einnig að maður var látinn lesa ýmsar sögur í æsku úr Íslendingasögunum. Maður var t.d. látinn lesa um Orm á Stórólfshvoli sem rakti garnir úr mönnum og vafði þeim utan um staur. Ég man eftir því þegar Grettir, sveitungi minn, var að klappa föður sínum á bakið með klóru þannig að það lá við stórslysi og varð reyndar stórslys. Og ég man ekki betur en maður væri látinn lesa um það að Egill hafi verið blindfullur að þvælast þriggja ára gamall. Þetta þóttu allt hinar bestu bókmenntir en ég er ansi hræddur um að þetta væri bannað innan 12 eða 14 ára aldurs ef þetta væri á kvikmynd.

    Ég veit að í sjónvarpinu er verið að sýna á hverju kvöldi kvikmyndir sem eru bannaðar börnum. Aðalatriðið er það að ef það er kennslugildi í þessum kvikmyndum þá séu þær skoðaðar af kennurum með börnum og þá á ekki að vera mikil hætta á því að börnin spillist af myndunum því það á að vera auðvelt að hlaupa fram hjá grófustu senunum ef um þær er að ræða í þessum kvikmyndum.
    Því miður veit ég, virðulegur forseti, að þetta er ekki mjög faglegt svar að öllu leyti, það er einfaldlega vegna þess að ég hygg að hæstv. menntmrh. og þeir sem þekkja betur til efnisins séu betur um það færir að svara í einstökum faglegum atriðum þessari fyrirspurn sem kom fram hjá hv. þm.