Fjáraukalög 1993

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 16:07:46 (664)


[16:07]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er greinilegt af þessu svari að hæstv. fjmrh. hefur ekki séð þessar myndir. Ég hef nefnilega séð þær báðar og hann kom líka að kjarna málsins sem er það hvort þessar myndir hafi eitthvert kennslugildi. Það er einmitt það sem þær hafa ekki. Nú kannski fullyrði ég stórt, það má að vísu taka Óðal feðranna sem kennsludæmi um flutning sveitadrengs til stórborgarinnar sem er margnotað efni í íslenskum bókmenntum og íslenskum kvikmyndum reyndar líka, en það er fyrst og fremst hin myndin, Í skugga hrafnsins, sem er að mínum dómi mjög ofbeldiskennd og er fyrst og fremst mynd sem höfundurinn gerir út frá sínum eigin hugmyndum. Hún byggist ekki á neinni ákveðinni sögu, hún er aðallega grautur upp úr Sturlungu og blandað saman ofbeldi af ýmsu tagi. Málið er auðvitað það hvers vegna var verið að kaupa þessar myndir. Það er hægt að fela sig á bak við það að vinna megi eitthvert verkefni upp úr þeim og eitthvað slíkt en þar sem þessi mynd sérstaklega er af því tagi að hún á ekkert erindi inn í skóla landsins vil ég minni á umræður sem urðu á landsfundi Sjálfstfl. um ofbeldi í kvikmyndum og tillögur sem ráðherra er að gera í þeim efnum. Þessi mynd er einmitt dæmi um slíka mynd sem á ekkert erindi inn í skóla landsins.