Fjáraukalög 1993

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 16:09:29 (665)


[16:09]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þó það komi kannski ekki þessari umræðu sérstaklega við þá hygg ég nú að myndin Í skugga hrafnsins sé ein besta kvikmynd þessa framleiðanda og leikstjóra sem hingað til hefur verið sýnd ( KÁ: Það er Hrafninn flýgur.) --- er það Hrafninn flýgur? ( KÁ: Já.) Ég veit ekki, það er sjálfsagt smekksatriði ( KÁ: Hún var góð þó hún sé blóðug.) --- það er mjög athyglivert og til bóta að hv. þm. kallar fram í að hún hafi álit á einni kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar og það verður auðvitað séð fyrir því í flýti að sú mynd komist vel til skila. Ég hef sem betur fer upp á síðkastið fengið að skoða nýjustu myndina, Hin helgu vé, hún er að koma út. Ég fullyrði að þar er á ferðinni langsamlega besta mynd Hrafns Gunnlaugssonar. Við höfum rætt heilmmikið um þessa ákveðnu persónu og mér skilst að það sé búið að boða umræður frekar um hrafninn, þ.e. Hrafn Gunnlaugsson, á næstunni þannig að ég ætla nú að spara mér frekari orð um þetta.
    Aðalatriðið var að sú tillaga sem kemur fram í þessum fjáraukalögum og varðar þessi kvikmyndakaup er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar allrar. Þetta er stjfrv. og þetta segi ég af því tilefni sem kom hér upp áðan þar sem gefið var í skyn að eingöngu menntmrh. bæri ábyrgð á þessari tillögu.