Fjáraukalög 1993

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 16:22:43 (668)


[16:22]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Varðandi milljarðinn á næsta ár, þá held ég að það sé hyggilegt að það sé rætt í fjárln. með öðrum málum sem snerta fjárlög næsta árs, þ.e. þennan milljarð og ég á von á því að hv. fjárln. fái tækifæri til þess að fylgjast náið með framvindu þeirra mála. Ég ætla ekki að gera það hér að umtalsefni, heldur hitt þegar því er haldið fram að það sé eitthvað nýtt eða það mátti a.m.k. skilja á orðum þingmannsins, að það væri eitthvað nýtt að fram það kæmi munur á niðurstöðu í fjárlögum og fjárlögum eins og þau eru samþykkt á hverjum tíma.
    Sannleikurinn er sá að árið 1988 var munurinn svo mikill að það þurfti að margfalda með 137 til þess að jafna útkomuna á fjárlögunum eins og þau voru samþykkt og til þess að fá niðurstöðuna eins og hún varð. Árið eftir, 1989, þurfti að tífalda þá upphæð. Það er aðeins eitt ár sem munaði 20%. Það var á árinu 1990. Síðan hefur munað tvöfalt og heldur ( GHelg: Það hefur verið öðruvísi bókhald.) Nei, nei, nei, og heldur hefur þetta minnkað upp á síðkastið því að nú munar þó ekki nema tvöfalt eða þar um bil. Á þessu ári erum við að tala um að hallinn verði kannski tvöfaldur miðað við það sem að var stefnt í upphafi.
    Þetta segi ég hérna til þess að benda á að þrátt fyrir allt, og það er ekki verið að kenna neinni einni ríkisstjórn um heldur einungis verið að benda á, að smám saman þokast þetta í þá átt að það er minni munur á niðurstöðu fjárlaganna í fjárlögunum sjálfum og niðurstöðunni í raun þegar upp er staðið. Og ástæðurnar fyrir þessu eru m.a. þær að það er staðið betur að fjárlögunum, reksturinn er betri og nákvæmari heldur en hann hefur verið og við sjáum núna fyrr í eftirlitinu hvað fer úrskeiðis þannig að það er fjöldi atriða sem hefur áhrif á þessi mál.