Happdrætti Háskóla Íslands

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 16:27:05 (670)

[16:26]
     Flm. (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Það var ánægjulegt að fylgjast með landsfundi Sjálfstfl. um helgina og einkum vakti það athygli mína og aðdáun hversu vel menn sátu fundinn. En því minnist ég á þetta að hér í sal Alþingis eru nú þrír hv. stjórnarþm., tveir ráðherrar og einn þingmaður, sá eini sem oftast situr þingfundi, hv. 4. þm. Reykv., Eyjólfur Konráð Jónsson. Aðrir hér í salnum eru stjórnarandstæðingar. Ég harma þetta vegna þess að þegar þingmenn eru að tala fyrir málum, þá er það auðvitað mjög til baga að menn skuli ekki hlýða á þann málflutning. En ég mun ekki láta það koma í veg fyrir að tala fyrir þessu máli og hef svo sem áður gert það fyrir hálftómum sölum.
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, með síðari breytingum. Meðflm. mínir eru hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og hv. þm. Svavar Gestsson.
    Þetta er lítið frv., einfalt og auðskilið. Fyrri grein þess hljóðar svo:
    ,,Lokamálsliður e-liðar 1. gr., orðin ,,Leyfishafi greiði í ríkissjóð 20% af nettóársarði í einkaleyfisgjald,`` fellur brott.``
    2. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Frumvarpstexti þessi skýrir sig sjálfur en rökin fyrir breytingunum eru eftirfarandi:
    Þegar Happdrætti Háskóla Íslands var stofnað með lögum nr. 44/1933 var happdrættið eina peningahappdrættið í landinu. Enginn annar hafði leyfi til að reka peningahappdrætti. Vegna þessa einkaleyfis háskólans þótti eðlilegt að ríkissjóður nyti í einhverju hluta af arðinum því að þetta var ábatavænlegt fyrirtæki sem mikill þorri landsmanna tók þátt í. Og það hefur svo sannarlega sýnt sig að hér var vel að verki

staðið því segja má að húsakostur Háskóla Íslands hafi að verulegu leyti verið byggður fyrir ágóðann af Happdrætti Háskóla Íslands.
    Nú hefur farið svo að þetta einkaleyfi hefur í raun og veru ekkert gildi lengur því að æ fleiri aðilar hafa fengið leyfi til að reka peningahappdrætti og þar með veitt Háskóla Íslands síharðnandi samkeppni án þess að þurfa að greiða sams konar hluta af arðinum og Háskóli Íslands verður að gera. Og það leiðir af sjálfu að tekjur háskólans af happdrættinu hafa farið mjög minnkandi og þess vegna verður það að teljast í hæsta máta ósanngjarnt að háskólinn einn eða Happdrætti Háskólans greiði eitt 20% af arði sínum til ríkissjóðs.
    Það hefur áður komið fram í umræðum hér á hinu háa Alþingi að mikill skortur er á heildarlöggjöf um happdrætti í landinu. Í greinargerð frá Háskóla Íslands segir að einkaleyfi Happdrættis Háskóla Íslands af rekstri peningahappdrættis hafi ekki fengist ókeypis og er það réttilega sagt. Happdrætti Háskóla Íslands hefur verið gert að greiða ákveðið hlutfall, 20% af hagnaði sínum, til ríkisins fyrir einkaleyfið. Síðan er talið upp hvaða happdrætti hafa komið síðan, svo sem lottó, getraunir og alls kyns peninga- og veðmálastarfsemi og því segir hér í greinargerð frá Háskóla Íslands eða happdrættinu:
    ,,Ljóst er því að happdrætti Háskóla Íslands, sá aðili sem einn greiðir 20% af hagnaði sínum til ríkisins vegna einkaleyfis á rekstri peningahappdrættis, á í vök að verjst.``
    Og þessi er m.a. ástæðan fyrir því mikla stríði sem upphófst hér fyrir nokkrum dögum milli Rauða kross Íslands og háskólans um stofnun svokallaðra spilakassa.
    Ég var ekki viðstödd vegna starfa erlendis þegar þessi umræða fór fram, en mér er mikil ánægja að lesa það í þingtíðindum að félagar mínir minntust á þetta frv. sem hér er nú mælt fyrir í þeirri umræðu og hæstv. menntmrh. segir í ræðu sinni 18. okt. sl., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hér hefur líka verið minnst á 20% einkaleyfisgjaldið og það liggja raunar fyrir hv. Alþingi núna tvö frumvörp, annað um afnám þess og hitt um aðra ráðstöfun þess heldur en núna er. Ég mun ræða það þegar þau mál ber á góma, en ég get skotið því hér að að ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að þetta 20% einkaleyfisgjald eigi að afnema. Það eigi ekki að renna til ríkisins. Ég hef hins vegar skoðanir á því hvernig eigi að fara með það, en það eigi að renna til háskólans.``
    Þar virðumst við vera sammála, hæstv. menntmrh. og flm. þessarar tillögu, og ber að fagna því.
    Áður en ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, vil ég leyfa mér að gera aðeins að umræðuefni orð virðulegs háskólarektors við útskrift kandídata nú fyrir örfáum dögum. Mér þótti rektor fara hörðum og harla ósanngjörnum orðum um Alþingi Íslendinga þar sem hann deildi hart á hv. þm. fyrir að vera ekki sammála hinni nýju aðferð við fjáröflun sem háskólinn hefur barist svo hart fyrir. Ég vil lýsa því yfir að sem þingmaður er ég tilbúin til að gera allt sem í mínu valdi stendur til að styðja við eflingu Háskóla Íslands. En ég mun ekki og get ekki stutt þær aðferðir sem nú á að taka upp, sem sagt að háskólinn þurfi að fjármagna byggingar sínar fyrir spilafé. Ég held að það hljóti að vera til aðrar og geðfelldari aðferðir. Og virðulegur rektor verður að sætta sig við það að á því mega hv. alþm. hafa sínar skoðanir. Mér þykir það töluvert harmsefni að svo sé komið fyrir áhuga Íslendinga á menntun og menningu í landinu að Háskóli Íslands skuli þurfa að afla sér fjár með því að setja upp spilakassa í bjórbúlum landsmanna. Mér finnst það ekki skemmtileg aðferð og vil því leyfa mér að mótmæla mjög harðlega orðum, sem ég tók til mín m.a., sem rektor lét falla og vil reka þau heim til föðurhúsanna. Ég hygg að hann hafi aldrei þurft að væna þá sem hér stendur um að hafa ekki verið tilbúin hvenær sem er að styðja við bakið á Háskóla Íslands, en ég get ekki fallist á að háskólinn afli fjár á þennan ógeðfellda hátt.
    Þetta vil ég að komi fram og vona að samskipti hins háa Alþingis og Háskóla Íslands hafi ekki beðið tjón í þessari leiðu umræðu sem hér varð.
    Ég treysti því hins vegar, hæstv. forseti, að aðrir hv. þm. en hæstv. menntmrh., sem þegar hefur lýst stuðningi við þetta frv., geti fallist á að það nái fram að ganga. Ég held að við getum öll með góðri samvisku fellt þetta ákvæði um 20% niður. Hv. 4. þm. Suðurl. hefur reiknað það út í ræðu sem hún hélt hér í fyrri viku að þar með fengi háskólinn 40 millj. til viðbótar og það er vel. Ég hygg að allir ættu að geta fallist á að það sé engin sanngirni í að háskólinn einn greiði þennan arð. Ég vænti þess því að sú hv. nefnd sem fær þetta frv. til meðferðar geti orðið sammála um að veita því forgöngu.
    Eftir nokkra umhugsun, hæstv. forseti, hvert bæri að vísa þessu frv., þá hygg ég að það sé smekklegra að ég vísi því til hv. efh.- og viðskn. Nú sé ég að hæstv. dómsmrh. hristir höfuðið og telur sennilega að ég ætti að vísa því til hv. fjárln. ( Gripið fram í: Allshn.) Dómsmrh. hefur sennilega bent á hina réttu leið að allshn. fái þetta mál til meðferðar. Mér finnst það nú reyndar orka aðeins tvímælis þar sem hér er um beint peningamál að ræða, en ég get fallist á það og leyfi mér því hér með, hæstv. forseti, að vísa málinu til hv. allshn.