Mannréttindasáttmáli Evrópu

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 16:37:34 (671)

[16:37]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um mannréttindasáttmála Evrópu. Með lagafrv. þessu er lagt til að mannréttindasáttmála Evrópu verði veitt lagagildi hér á landi.
    Tildrög þess að frv. þetta sem hér liggur fyrir var samið eru þau að hinn 25. júní 1992 gekk í fyrsta sinn áfellisdómur á hendur íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland fullgilti 19. júní 1953. Mál það sem hér um ræðir varðar kæru Þorgeirs Þorgeirssonar rithöfundar á hendur íslenska ríkinu.
    Í dómi sínum taldi dómstóllinn að íslenska ríkið hefði brotið gegn 10. gr. samningsins um tjáningarfrelsi er Þorgeir var dæmdur í Hæstarétti til sektargreiðslu á grundvelli 108. gr. almennra hegningarlaga fyrir tiltekin ummæli um lögregluna. Í framhaldi af dómsmáli þessu skipaði ég þann 8. júlí 1992 nefnd til að gera tillögur um viðbrögð við dómi þessum, þar á meðal að kanna hvort tímabært væri að lögfesta mannréttindasáttmála Evrópu hér á landi og þá eftir atvikum að undirbúa frv. til laga um það efni. Í nefnd þessari áttu sæti Ragnhildur Helgadóttir, fyrrv. ráðherra, og var hún jafnframt formaður nefndarinnar, Björn Bjarnason alþm., Eiríkur Tómasson hæstaréttarlögmaður, Markús Sigurbjörnsson prófessor og Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður.
    Með bréfi dags. 7. apríl sl. afhenti formaður nefndarinnar mér frv. sem nefndin hafði undirbúið þar sem lagt er til að sáttmálinn hafi lagagildi hér á landi. Er það frv. það sem hér liggur fyrir. Jafnframt fylgdu frv. ítarlegar athugasemdir og eru þær prentaðar í heild með frv. Það var samdóma álit nefndarmanna að rétt væri að leggja til að mannréttindasáttmáli Evrópu yrði lögtekinn hér á landi, en sú niðurstaða var einkum byggð á því að lögfesting sáttmálans væri til að auka réttaröryggi.
    Þótt nefndarmenn væru sammála um réttmæti þess að lögfesta sáttmálann var einn nefndarmanna, Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, ekki sammála því að leggja til að sáttmálinn í heild yrði lögfestur, heldur taldi hann nægjanlegt að lögfesta aðeins efnisákvæði hans. Hann lagði fram sérálit þar sem hann leggur til að einungis bein réttarákvæði sáttmálans verði lögfest, en ekki ákvæðin um stofnanir sem starfa samkvæmt honum og meðferð þeirra á kærumálum. Tillögur hæstaréttarlögmannsins eru prentaðar sem viðauki við athugasemdirnar með frv.
    Frv. var lagt fram til kynningar í maímánuði skömmu fyrir lok síðasta þings og er hér flutt að nýju í óbreyttri mynd.
    Enda þótt nú séu liðin liðlega 40 ár frá því að mannréttindasáttmáli Evrópu var fullgiltur af Íslands hálfu hefur ekki komið til þess fyrr að gerð hafi verið af hálfu stjórnvalda tillaga um lögfestingu ákvæða hans hér á landi. Í flestum aðildarríkjum Evrópuráðsins hefur samningurinn hins vegar verið lögfestur. Þó hafa Norðurlöndin haft þar nokkra sérstöðu, svo og Bretland og Írland. Lönd þau sem ekki hafa lögfest sáttmálann hafa þannig aðeins verið skuldbundin að þjóðarrétti til að hlíta ákvæðum hans. Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem hreyfing hefur komið á umræðu um það á Norðurlöndum að lögfesta bæri ákvæði sáttmálans. Finnland var fyrst Norðurlandanna til að lögfesta ákvæði sáttmálans, en svo sem kunnugt er eru aðeins fá ár síðan Finnland gekk í Evrópuráðið. Í tengslum við það var mannréttindasáttmálinn lögfestur þar í landi í maí 1990. Í Danmörku var sáttmálinn lögfestur 1. júlí 1992. Frumvörp um lögfestingu voru kynnt bæði í Noregi og Svíþjóð á fyrri hluta þessa árs. Má því búast við að svo til öll aðildarríki Evrópuráðsins hafi áður en langur tími líður lögfest sáttmálann. Vegna þess sérálits sem fram er komið um að lögfesta aðeins efnisákvæði sáttmálans skal hér bent á að bæði finnsku og dönsku lögin lögfesta sáttmálann í heild og í tillögum Norðmanna og Svía um lögfestingu er lagt til að texti sáttmálans verði lögfestur í heild.
    Ástæður þess að nú fyrst hefur komið upp hreyfing innan Norðurlandanna um að lögfesta ákvæði sáttmálans má e.t.v. rekja til þess að á síðustu 10 árum hefur sáttmálinn orðið mun þekktari í löndum Evrópuráðsins og dómsmálastofnanir orðið mun virkari sem sést best á því að á 30 ára ferli Mannréttindadómstólsins frá 1960--1990 lauk hann við að dæma í 191 máli, en af þeim málum voru aðeins 40 dæmd á fyrstu 20 árunum. Hin 150 voru dæmd á síðustu 10 árunum. Nú er svo komið að endurskipuleggja þarf starfsemi dómsmálastofnananna til þess að gera málsmeðferð hraðari og skilvirkari.
    Áhrif lögfestingar mannréttindasáttmálans eru fyrst og fremst þau að í stað þess að íslenska ríkið er nú skuldbundið að þjóðarrétti til að virða ákvæði samningsins og haga setningu laga með tilliti til þeirra, verða við lögfestinguna ákvæði sáttmálans beinlínis gerð að landslögum og mundi þannig lögfesting sáttmálans hafa í för með sér að líta má svo á að fyrirmæli eldri laga sem kunna að reynast ósamþýðanleg ákvæðum sáttmálans teldust að meginreglu falla niður við gildistöku lögfestingarlaganna. Með því að hér yrði um almenn lög að ræða yrðu ákvæði þeirra yfirleitt að víkja fyrir yngri lögum en þó svo að ákvæði yngri laga en lögfestingarlaganna kynnu að vera andstæð ákvæðum sáttmálans, þá stæði skuldbinding íslenska ríkisins samkvæmt sáttmálanum samt óhögguð að þjóðarrétti. Gætu því dómstólar með sama

hætti og hingað til beitt ákvæðum sáttmálans í úrlausnum sínum til skýringar á yngri lögum.
    Svo sem að framan segir er ein helsta röksemd þess að lögfesta ákvæði sáttmálans sú að réttaröryggi aukist, en fleiri atriði koma þar einnig til. Eru þau nánar rakin í VII. kafla athugasemda með frv. Vil ég þó geta nokkurra þeirra sérstaklega hér.
    Er þess þá fyrst að geta að réttindi einstaklinga munu fá aukna vernd. Þá er í sumum greinum sáttmálans að finna ákvæði sem ítarlegri eru en í íslenskri löggjöf um einstaka þætti mannréttindamála. Sem dæmi má nefna 10. gr. sáttmálans sem samkvæmt orðalagi sínu tekur til tjáningarfrelsis almennt meðan 72. gr. stjórnarskrár okkar nær einvörðungu til prentfrelsis samkvæmt orðanna hljóðan. Samkvæmt þessu yrði lögtaka sáttmálans gagngert til þess að fylla upp í það sem kalla mætti eyður í íslenskri löggjöf.
    Þá getur einstaklingur borið ákvæði sáttmálans fyrir sig sem beina réttarreglu fyrir dómi eða stjórnvöldum ef sáttmálinn er lögfestur, en nú verður aðeins til hans vísað til leiðbeiningar við lögskýringar. Eftir lögfestingu sáttmálans geta einstaklingar fengið dómsúrlausn hér á landi um ýmis þau kæruefni sem ella hefði þurft að leggja fyrir dómsmálastofnanir Evrópuráðsins í Strassborg.
    Þá vil ég að lokum geta þess að lögfesting mannréttindasáttmála Evrópu hér á landi væri í samræmi við almenna stefnu í flestum öðrum Evrópuríkjum og yrði þannig bæði til að færa íslenska löggjöf um þessi efni í sama horf og löggjöf þeirra ríkja sem við eigum hvað helst samskipti við og samstöðu með og til að auka á alþjóðavettvangi traust á virðingu ríkisins fyrir mannréttindum.
    Frú forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.