Mannréttindasáttmáli Evrópu

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 16:45:33 (672)

[16:45]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna því sérstaklega að þetta frv. skuli komið fram og að nefnd sú sem verið hefur að störfum nokkurt skeið hafi nú skilað af sér. Þessi orð mín þýða það auðvitað að ég er því mjög hlynnt að mannréttindasáttmáli Evrópuráðsins verði lögtekinn hér á landi og ég tek undir þær skýringar sem fram komu í máli hæstv. dómsmrh., og reyndar í áliti nefndarinnar, þar sem það er rökstutt hvers vegna beri að gera þetta. Ég vil líka hrósa nefndinni sérstaklega fyrir mjög vel unnið frv. og góða greinargerð. Þetta er alveg sérdeilis vel unnið og miklar og góðar skýringar. Mér datt reyndar í hug þegar ég var að lesa þetta að hér er komið hið besta kennslugagn, hvar sem menn vilja nú æfa sig í tungumálum, því að efni sáttmálans er birt á íslensku, ensku og frönsku. Ef menn vilja leika sér í samanburðarfræðum og æfa sig í að þýða, þá er hér komið hið besta efni til þess. En þetta er ákaflega vel unnið og mér finnst ástæða til að taka það fram sérstaklega.
    Eins og fram hefur komið er ekki síst ástæða til þess að gera hér gangskör að því að lögtaka þennan sáttmála vegna þeirra dóma sem við Íslendingar höfum fengið á okkur, en þeir sem þekkja til Mannréttindadómstóls Evrópuráðsins og þeirrar miklu virðingar sem hann nýtur vita að það þykir ekki gott að fá á sig dóma þessa dómstóls og menn taka það mjög alvarlega þegar hann fellir dóma sem fela það í sér að ríki Evrópuráðsins hafi ekki staðið við mannréttindasáttmálann, en auðvitað eru sakir misþungar. Og það hefur sem sagt komið í ljóst á undanförnum árum að það er ýmislegt í okkar lögum sem ekki stenst mannréttindasáttmálann og þarfnast lagfæringar.
    Hér með frv. fylgir greinargerð Guðrúnar Gauksdóttur þar sem hún fer í gegnum íslensk lög og reynir að tína þar til hverju þurfi að breyta og það reynist nú vera ýmislegt. Fyrsta spurning mín til hæstv. dómsmrh. er sú hvort hann hugsi sér að láta vinna það verk að gera nauðsynlegar lagabreytingar til samræmis við sáttmálann eða hvort það verði látið gerast eftir því sem málin koma upp. Ég get lýst þeirri skoðun minni að mér fyndist rétt að menn færu einfaldlega í að verk að breyta íslenskum lögum til samræmis við sáttmálann þó að þar kunni að vera eitt og annað sem menn eru ekki alveg sáttir við og rekst á við þær hefðir sem hér hafa ríkt og þá verður mér einkum hugsað til félagafrelsisins. En ef við undirritum sáttmála og samþykkjum sáttmála um mannréttindi, þá ber okkur auðvitað að standa við þá þó að það rekist á við hefðir.
    Sú skoðun kemur fram í álitinu, sem ég vil taka undir, að í kjölfar þess að sáttmálinn verði lögtekinn og reyndar ekki bara þess vegna, heldur af ýmsum ástæðum, þá sé nauðsynlegt að endurskoða íslensku stjórnarskrána. Og ég tek undir þau orð sem fram komu í máli hæstv. dómsmrh. að íslenska stjórnarskráin, sem er mjög gömul að stofni, er mjög fátæk af mannréttindaákvæðum og miðast við tíma sem löngu eru liðnir. Það er ýmislegt sem við þurfum að skoða í þeim efnum og setja í íslensku stjórnarskrána þannig að hún tryggi það sem við nú skilgreinum sem mannréttindaákvæði.
    En rétt eins og við Íslendingar höfum fengið á okkur dóma, þá kemur það í ljós þegar maður fer að glugga í skjöl og heimildir að það er ekkert auðvelt að standa við mannréttindasáttmála, hvort sem við erum að tala um sáttmála Evrópuráðsins eða mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Ég fletti upp í skýrslu Amnesty International fyrir árið 1993 og þar kemur í ljós að það eru hvorki meira né minna en 20 ríki Evrópuráðsins sem eru nefnd í skýrslu Amnesty International og þeirra á meðal eru bæði Danmörk og Noregur. Það er að vísu í mörgum tilvikum ekki um alvarleg brot að ræða, en þó það alvarleg að þau hafa komist á skrá hjá Amnesty. Þegar maður lítur betur á þessi brot, þá eru þau fyrst og fremst brot sem snerta fangelsismál, ýmislegt sem gerist í fangelsum. En Ísland er sem betur fer ekki í skýrslu Amnesty International og þó við vitum að ýmislegt sé að í okkar fangelsismálum þá eru vonandi ekki framin þar

mannréttindabrot þó ég þori ekki að fullyrða neitt um það. En það eru 20 af ríkjum Evrópuráðsins sem nefnd eru í skýrslum Amnesty af 31 aðildarríki og þar að auki eru nefnd sex ríki sem nú hafa gestaaðild að Evrópuráðinu. Mér finnst þetta mjög umhugsunarvert og bendir auðvitað til þess hversu vandmeðfarin mannréttindamálin eru og viðkvæm að mörgu leyti.
    Eins og ég hef komið hér að þá höfum við verk að vinna í okkar lagagerð og ég held líka að þegar hið háa Alþingi hefur lögtekið þennan sáttmála, sem ég efast ekki um að muni gerast, þá þarf auðvitað að kynna hann mjög vel. Ég held að það veiti ekki af að kynna Íslendingum mannréttindi, hvaða réttindi fólk hefur. Það er mjög nauðsynlegt að allur almenningur þekki til þeirra. Sáttmálinn sjálfur hefur þróast frá því að hann var fyrst undirritaður 1949 og það hafa verið gerðar við hann ýmsar viðbætur. Ég var einmitt að hugleiða það þegar ég var að fara í gegnum þetta frv. hvort leiðtogafundurinn í Vínarborg í október mundi leiða af sér einhverjar viðbætur við sáttmálann. Ég vildi gjarnan heyra álit hæstv. dómsmrh. á því hvort menn sjái fyrir sér fleiri viðbætur við sáttmálann, því á Vínarfundinum var mikið rætt um ýmis vaxandi vandamál í Evrópu, þar á meðal málefni flóttamanna. En þó ekki síst þær hugmyndir sem menn héldu nú kannski að væru ekki hátt skrifaðar í Evrópu eins og kynþáttamisrétti, útlendingahatur og þjóðernishyggja sem hafa blossað upp á undanförnum árum og valda því að menn þurfa að skoða mannréttindin og þar með talið sáttmálann aðeins upp á nýtt. Okkur var einmitt að berast í gær, held ég að það hafi verið, yfirlýsing Vínarfundar Evrópuráðsins þar sem lögð er mikil áhersla á þessi efni og mér fannst rétt að benda á það hér í þessu samhengi að það kunna að vera viðbætur við sáttmálann á leiðinni í kjölfar þess fundar þótt ég geti reyndar ekki fullyrt um það.
    Það er eitt atriði sem ég vil einnig nefna í þessu sambandi og sem snertir okkur kannski. Það er það að á vettvangi Evrópuráðsins hafa menn nokkuð verið að velta því fyrir sér hvaða áhrif það muni hafa á meðferð mannréttindamála og ekki síst dómstólsins þegar þangað koma inn nýjar þjóðir. Þjóðum Evrópuráðsins er stöðugt að fjölga og þar er um að ræða þjóðir sem hafa búið við allt annað stjórnarfar og allt annað réttarfar og hefðir en tíðkast hafa í Vestur-Evrópu. Menn hafa verið að velta því fyrir sér þegar og ef dómurum Mannréttindadómstólsins verður fjölgað og þessar þjóðir fá þar sína fulltrúa hvaða áhrif það muni hafa á dómstólinn. Við erum m.a. að tala um þjóðir í Austur-Evrópu þar sem múslimar eru í meiri hluta og þar sem ýmsar aðrar hugmyndir hafa verið ríkjandi. En þetta er nú reynar allt framtíðarmúsik. En kannski ítrekar það fyrir okkur hversu nauðsynlegt það er að standa vörð um mannréttindasáttmála Evrópuráðsins. Ég held að ef við Íslendingar stígum það skref að lögtaka hann þá verði það til þess að styrkja sáttmálann og muni auðvelda okkur sem erum hluti af Evrópu að standa vörð um þau mannréttindi sem við viljum verja og bæta hér í okkar álfu.