Réttarfar, atvinnuréttindi o.fl.

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 16:56:27 (673)

[16:56]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingar á ýmsum lögum sem varða réttarfar, atvinnuréttindi o.fl. vegna aðildar að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.
    Þetta frv. er endurflutt. Það var lagt fram á síðasta þingi og þá fóru hér fram nokkuð ítarlegar umræður við 1. umr. og því hafði verið vísað til hv. allshn.
    Frv. er samið í dóms- og kirkjumrn. til breytinga á lögum sem eru á starfssviði ráðuneytisins til aðlögunar að samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Helstu forsendur fyrir þeim lagabreytingum sem hér er getið um eru eftirfarandi:
    1. Í III. hluta samnings um Evrópska efnahagssvæðið er gert ráð fyrir þeirri aðalreglu að þegnar annarra ríkja, sem njóta réttinda samkvæmt samningnum, verði jafnsettir innlendum þegnum á hverjum stað, m.a. varðandi atvinnuréttindi og heimildir til fjárfestingar, auk þess að njóta vissra réttinda til ferða og dvalar í samningsríkjunum.
    2. Gera verður breytingar á nokkrum lögum á sviði ráðuneytisins til samræmis við tilskipun 89/48/EBE um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár.
    3. Ákvæði frumvarpsins miða að auki að nokkru marki að breytingum á löggjöf á sviði ráðuneytisins sem varðar leyfisbundna þjónustustarfsemi málflutningsmanna, fasteigna- og skipasala og niðurjöfnunarmanna sjótjóns.
    4. Í bókun 5 með samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls er að

finna stofnsamþykkt EFTA-dómstólsins en í 25. og 26. gr. bókunarinnar koma fram reglur um gagnaöflun fyrir dómstólnum sem kosta tvenns konar breytingar á lögum á sviði ráðuneytisins.
    Að öðru leyti, frú forseti, vísa ég til þeirra athugasemda sem fylgja með frv. og þeirrar umræðu sem fram fór um það á fyrra þingi og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.