Réttarfar, atvinnuréttindi o.fl.

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 17:00:35 (675)


[17:00]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég stend hér upp vegna þess að ég á ekki sæti í hv. allshn. en vil brýna hv. nefnd að skoða þetta mál vandlega. Það er að vísu svo að hendur okkar alþingismanna eru bundnar eða eru að verða bundnar ef samningur um Evrópskt efnahagssvæði gengur í gildi og við verðum að lögtaka það sem að okkur er rétt. Hér kann að vera um atriði að ræða í þessu frv. sem sneiða nálægt stjórnarskránni. Sumt í þessu frv. er nú nokkuð sérkennilegt. Ég nefni t.d. VI. kafla, lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Ráðherra veitir leyfi til að víkja frá skilyrðum 1. mgr.:
    1. Samkvæmt umsókn frá þeim sem hefur rétt til að stunda atvinnurekstur hér á landi og vill öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni eða til að halda þar heimili.``
    Gott og vel. Síðan kemur liður 2 og hann hljóðar svona:
    ,,2. Ef annars þykir ástæða til.``
    Þetta finnst mér nú dálítið rúmt og ég spyr heiðraða lögfræðinga hér í salnum hvort þeim þyki þetta ekki vera farið alveg á fremstu nöf.
    Ég ætla ekki að orðlengja um þetta mál en ég vil biðja hv. allshn. að skoða þetta mál mjög vandlega og hrapa ekki að afgreiðslu þess. Við höfum dæmi þess að í embættismannakerfinu íslenska eru til menn sem eru kaþólskari en páfinn, þ.e. menn sem vilja fullnægja herrunum í Brussel jafnvel enn meir heldur en þeir krefjast. Þess vegna mæli ég þessi orð.