Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 17:04:43 (677)


[17:04]

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur hér gert grein fyrir efni þessa frv. en það er um það að við þurfum að leita til erlendra aðila til að vita hvernig skuli dæma hér á landi eða þangað eigi að leita eftir erkibiskups boðskap. Eitt af þeim meginatriðum sem ágreiningur var um á sl. ári við meðferð EES-samningsins hér á Alþingi var um það hvort hann stæðist stjórnarskrána eða ekki.
    Í áliti sem Guðmundur Alfreðsson gaf um það efni fjallar hann nokkuð um þetta og ég vil lesa örstuttan kafla úr hans áliti, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,107. gr. EES-samningsins og bókun nr. 34 með samningnum hljóta einnig að valda stjórnskipunarlegum vandkvæðum, aðallega vegna ónákvæmni í greinargerð með EES-frumvarpinu. Bókunin heimilar, einfaldlega að útgefinni tilkynningu EFTA-ríkis, að dómstólar í EFTA-ríkjunum láti EB-dómstólinn kveða upp forúrskurði með bindandi skýringum á EES-samningnum. Svona samningsákvæði væri greinilega ekki marktækt að óbreyttri stjórnarskrá.
    Þessi stjórnskipunarafstaða er viðurkennd með hálfum huga í greinargerð frv.`` --- það er ekki þetta frv. en þar segir svo:
    ,,Enga nauðsyn ber til að gefa slíka tilkynningu. Slík heimild til handa íslenskum dómstólum myndi krefjast lagaheimildar og jafnvel stjórnarskrárbreytingar.``
    Þarna þarf að marka skýrar línur og taka af allan vafa um hvernig að framkvæmd heimildarinnar skyldi staðið ef stjórnvöld vildu gefa út umrædda tilkynningu. Það á enginn vafi að leika á því, að bindandi forúrskurðir frá dómstól alþjóðastofnunar, sem við erum þar að auki ekki aðilar að, mundu útheimta stjórnarskrárbreytingu.``
    Þarna er vikið að því að það sé margt óljóst í þessu máli og mikill vafi eða jafnvel kannski enginn vafi réttara sagt á að þetta gæti stangast á við stjórnarskrána. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann telji ekki að þetta álit, forúrskurðarálit, verði í reynd algerlega bindandi fyrir íslenska dómara þegar búið er að leita eftir því. Það skilst mér að sé að hljóta viðurkenningu t.d. á Norðurlöndunum, að þarna þýði það raunverulega að þar með sé endanlegur dómur fallinn. Enda hefði það litla þýðingu fyrir íslenskan dómstól að vera að kveða upp andstæðan dóm þegar vitað er að honum má skjóta til EFTA-dómstólsins sem er þá búinn að láta í ljós þetta viðhorf sitt.
    Í frv. er talað um það að dómari geti valið um það hvort það eigi að skjóta máli til forúrskurðar eða ekki. En mér sýnist nú að það geti farið svo að dómari eigi þarna ekkert val og verði hreinlega knúinn til að fá svona forúrskurð þó hann vilji það ekki. Það er sagt í frv. að héraðsdómari geti ákveðið að leita forúrskurðar hvort sem málsaðilar leggja það til eða ekki. En hins vegar geti þá málsaðilar skotið úrskurði héraðsdómara, ef hann hafnar því að leita eftir forúrskurðinum, til Hæstaréttar. Hæstiréttur, eftir því sem ég skil, getur þá knúið dómarann til þess að leitað verði eftir þessum forúrskurði. Þar með sé ég ekki að héraðsdómarinn eigi lengur neitt val. Mér sýnist að þetta stangist nokkuð á eftir því sem ég get skilið.
    En það er að sjálfsögðu margt sem kemur upp í hugann í sambandi við framkvæmd þessara mála og sem er nú ekki í mínum huga a.m.k. mjög skýrt. Hvernig geta málsaðilar tryggt það t.d. að vel komist til skila öll þeirra viðhorf til dómstóls sem er svo fjarri? Að vísu er kveðið á í þessu að málflutningur geti farið fram fyrir íslenskum dómstóli, að ég skil, eða upplýsingaöflun, en hversu skýrt það kemst til hins erlenda dómstóls er mér ekki ljóst og ekki heldur hver sá kostnaður gæti orðið sem af þessu hlytist fyrir þann sem væri dæmdur til þess að greiða málskostnað vegna þess að máli væri þangað skotið að hans ósk.
    En það eru sem sagt fjölmörg atriði og ég held að allshn. muni verða að skoða þetta mjög rækilega í meðferð sinni á frv. Þó frv. sé ekki langt þá eru þarna mörg atriði sem hljóta að orka mjög tvímælis, svo að vægt sé til orða tekið, og æskilegt að fá skýringar á því hvernig þetta muni ganga fyrir sig, sama hvaða viðhorf menn hafa til þessa máls, til þess að gera sér grein fyrir því hvað þarna er verið að fjalla um.