Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 17:12:52 (678)


[17:12]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég vil taka undir orð hv. síðasta ræðumanns sem sagði að vægt væri til orða tekið þegar sagt væri að hér orkaði mjög margt tvímælis. Ég tel að þarna sjáum við svart á hvítu og reyndar kom það fram í fyrra líka, að verið er að flytja hluta af dómsvaldinu úr landi. Ég tel ekki á því nokkurn vafa. Við munum eftir þeim umræðum sem hér fóru fram, bæði í þessum sal og reyndar utan hans líka um það hvort samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði stæðist íslensku stjórnarskrána, m.a. að því er varðaði dómstóla. Þá var því haldið fram að grundvallaratriðið væri að þó leitað væri úrskurðar eða álits EFTA-dómstólsins þá væri hann ekki bindandi og þess vegna gæti þetta staðist stjórnarskrána. En það hljóta allir að sjá það sem lesa þetta litla frv., sem þó er svo stórt, að það verður mjög erfitt ef ekki ómögulegt fyrir íslenska dómstóla annað en að fara eftir þeim úrskurðum sem EFTA-dómstóllinn kveður upp, því það álit sem þeir hafa á EES-samningnum hlýtur að vera ráðandi og þeim reglum sem þar gilda. Og það er ekkert lítið, því það er ekki bara samningurinn heldur allar þær bókanir sem honum tilheyra. Við hljótum að

muna eftir því að mörg ákvæði samningsins eru síbreytileg þannig að við erum stöðugt að fá nýjar reglur frá Evrópubandalaginu sem þarf að vera að túlka. Við erum því í raun að veita erlendum dómstóli rétt til að hafa veruleg áhrif á dómstóla hér á landi. Að mínu mati er þarna um bindandi úrskurði dómstólsins að ræða. Þó að því sé haldið fram og bæði talað um það í þessu að þetta sé eingöngu ráðgefandi og eins var talað um það í fyrra að þetta væri ekki bindandi, þá lít ég svo á að þarna sé um bindandi úrskurði að ræða. Þannig lít ég á að verið sé að fara í kringum stjórnarskrána með því að orða það með þeim hætti sem þarna er gert. Ég skora því á hv. allshn. að fara vel ofan í þetta mál og sé ekki annað en að þarna sé verið að flytja, ef þetta frv. verður að lögum, hluta af dómsvaldi til erlendra aðila.