Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 17:18:59 (680)


[17:18]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hér stendur í athugasemdum við 1. gr. frv. m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Álitið á aðeins að vera ráðgefandi eins og segir í 1. mgr. 1. gr. og bindur það því ekki héraðsdómara við úrlausn máls þótt vissulega verði að telja að eftir því yrði að öðru jöfnu farið að því leyti sem úrlausnin veltur á álitaefninu.``
    Þarna gengur sem sagt hæstv. ráðherra sjálfur út frá því í grg. með frv. að það séu litlar líkur til þess að nokkur fari að dæma öðruvísi. Það kom fram í máli mínu að það væri Hæstiréttur sem gæti knúið héraðsdómara til þess að leita eftir forúrskurði þó að hann teldi ekki þörf á því. Því það segir svo í niðurlagi greinargerðar við 1. gr. frv., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Kæruheimildin í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins er þó ekki bundin við þau tilvik þar sem héraðsdómari úrskurðar að álits EFTA-dómstólsins verði leitað heldur nær hún einnig til úrskurðar um gagnstæða niðurstöðu hans.``
    Sem sagt, ef hann hafnar því þá getur Hæstiréttur knúið hann til þess. Það er auðvitað alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að Hæstiréttur er íslenskur dómstóll, en hann getur tekið fram fyrir hendur dómara og ekki treyst honum til þess að kveða upp dóm af eigin dómgreind. En þá finnst mér náttúrlega vakna spurningin, og það kemur held ég hvergi fram í þessu frv. og gögnum öllum: Eftir hvaða rökum á Hæstiréttur að dæma að það skuli knýja héraðsdómara til þess að fá forúrskurð áður en dómur er fallinn eða kveðinn upp? Hvaða forsendur þurfa að liggja fyrir til þess að það sé hægt að taka þá ráðin af héraðsdómara og hvað er það raunverulega sem á þannig að meta í þessu sambandi? Það er hvergi vikið að slíku eins og svo fjölmörgu öðru í þessu frv. sem virðist vera áþekkt því sem ég held að hafi nú einkennt mjög margt af því sem verið var að samþykkja á síðasta þingi og á sjálfsagt eftir að samþykkja nú í vetur, að við vitum harla lítið út í hvað við erum að fara. Og einhvern veginn finnst mér nú að andrúmsloftið og viðhorfið sé óðum að breytast í þá átt að helst vildu margir gleyma því sem gert var á síðasta þingi.