Lyfjaverslun ríkisins

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 17:28:28 (685)

[17:28]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um stofnun hlutafélags um Lyfjaverslun ríkisins og heimild til sölu hlutabréfa í því félagi. Þetta mál er að finna á þskj. 126 og er 121. mál þessa þings.
    Þetta frv. er flutt óbreytt frá síðasta þingi. Reyndar eru gerðar örlitlar breytingar í athugasemdum með frv. sem ég skal skýra frá nánar. Ég vek athygli á því að þetta frv. er nokkuð ólíkt öðrum frumvörpum af sama tagi, sér í lagi með tilliti til þess sem segir í síðari mgr. 4. gr., að fjmrh. sé heimilt að selja hlutabréf ríkissjóðs að öllu leyti eða hluta, sem ekki er óvenjulegt, en til viðbótar kemur orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Við sölu hlutabréfa skal þess gætt að samkeppni verði tryggð á sviði dreifingar og framleiðslu lyfja.``
    Hér er með öðrum orðum, og það kemur fram í greinargerðinni með frv. um 4. gr., verið að setja nokkrar skorður við heimild fjmrh. til sölu hlutabréfanna þannig að þess verði gætt að tryggð verði áframhaldandi samkeppni á sviði lyfjadreifingar og framleiðslu lyfja. Og á það er bent í athugasemdunum við 4. gr. að hagsmunir ríkisins séu afar miklir á þessu sviði þar sem ríkissjóður greiðir í raun langstærstan hluta lyfjakostnaðar landsmanna eða tæplega 70% með endurgreiðslum í gegnum tryggingakerfið og greiðslu lyfjakostnaðar á sjúkrahúsum.
    Það hefur verið gerð nokkur úttekt á íslenska lyfjamarkaðnum, en það eru til dágóðar upplýsingar um hann og samkvæmt þeim upplýsingum sem til eru í ritinu ,,Íslenski lyfjamarkaðurinn`` kemur í ljós að það munu vera um 8 fyrirtæki sem stunda heildsöludreifingu lyfja á Íslandi. Þar er langstærst fyrirtækið Pharmaco hf. sem er eitt af sterkustu og best reknu fyrirtækjum landsins vil ég fullyrða. Það hefur 55% markaðshlutdeildarinnar, en í öðru sæti er Lyfjaverslun ríkisins sem hefur 18% og í þriðja sæti er síðan Stefán Thorarensen með 14% og önnur fyrirtæki með minna.
    Eins og kemur fram í almennum athugasemdum með frv. er tilgangur þessa frv. að breyta Lyfjaverslun ríkisins í hlutafélag og er jafnframt aflað heimildar ríkisins til sölu hlutabréfa í félaginu.
    Ég tel ástæðulaust, virðulegi forseti, að lýsa í einstökum atriðum frumvarpsgreinunum. Þær eru allar eins og þær voru á síðasta þingi og reyndar athugasemdirnar einnig. Það hefur þó bæst við ein setning í athugasemdunum þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Nú stendur yfir endurnýjun framleiðsludeilda svo þær standist nýja staðla um góða framleiðsluhætti.``
    Varðandi þetta atriði skal það sagt að á sl. sumri urðu nokkrar umræður um þetta mál og þótti sumum óeðlilegt að fyrirtækið væri að fjárfesta verulega þegar ljóst var að ríkisstjórnin stefndi að því að selja fyrirtækið. Það er gert ráð fyrir því að endurnýjun þessara deilda sem um getur í athugasemdunum kosti u.þ.b. 200 millj. kr. eða tæpar 200 millj. kr. Annars vegar er um að ræða framkvæmdina sjálfa sem er u.þ.b. 140 millj. og síðan eru það tæki sem kosta um 45 millj. kr. Þessi fjárfesting á sér stað að undangenginni mikilli athugun og niðurstaðan varð sú að það væri eðlilegt að hefja þessar framkvæmdir jafnvel þótt ljóst væri að fyrirtæki yrði einkavætt. Það skal tekið fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning að fyrirtækið fær ekki fjármuni úr ríkissjóði til þessara framkvæmda, heldur mun það fjármagna framkvæmdirnar úr eigin rekstri. Að sjálfsögðu þarf fyrirtækið að taka eðlileg viðskiptalán, en þar sem fyrirtækið er ríkisfyrirtæki fylgir slíku láni að sjálfsögðu ríkisábyrgð með sama hætti og hjá öðrum ríkisfyrirtækjum. Þess vegna er upphæðin tiltekin í því lánsfjárlagafrv. sem liggur fyrir Alþingi og mælt hefur verið fyrir nú þegar.
    Í athugasemdum með frv. nú eru nýrri upplýsingar en á sl. ári, en það stafar að sjálfsögðu af því að nú liggja fyrir reikningar félagsins, réttara sagt fyrirtækisins, fyrir árið 1992. Þar kemur í ljós að sala fyrirtækisins nemur yfir 800 millj. kr. Hagnaður af rekstri Lyfjaverslunarinnar var á sl. ári 66,9 millj. og bókfært eigið fé í árslok 1992 er samtals 355,2 millj. kr. Í lok hinnar almennu greinargerðar er sagt frá nokkrum ákvæðum laganna sem koma til með að breytast og falla niður þegar fyrirtækið verður einkavætt. Það skal tekið fram að öll þessi atriði eru sett hér í þessa greinargerð í fullu samráði við heilbr.- og trmrn.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð öllu fleiri. Umræður fóru fram á síðasta þingi, 1. umr. Málið hlaut ekki endanlega afgreiðslu. Leitað var umsagna og þær liggja fyrir þannig að gera má ráð fyrir að athugun á málinu taki skemmri tíma nú en þá.
    Það er ósk mín að þetta mál gangi til efh.- og viðskn. þingsins og því verði enn fremur vísað til 2. umr.