Lyfjaverslun ríkisins

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 17:52:46 (688)


[17:52]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þessar umræður, þær draga dám af því að sjálfsögðu að málið hefur verið rætt nokkuð áður. Ég vil strax í upphafi geta þess að mér finnst eðlilegt að málið verði sent áfram

til heilbr.- og trn. þingsins úr efh.- og viðskn., ekki síst vegna þeirra breytinga sem þarf að gera á lögunum og varða sjúkrahús og heilbrigðisþjónustuna og reyndar Almannavarnir ríkisins.
    Ég mun leitast við að svara örfáum fyrirspurnum og nefna nokkur atriði önnur sem fram komu í ræðum hv. ræðumanna.
    Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. 1. þm. Norðurl. e. að það er afar mikilvægt að halda lyfjaverðinu sem lægstu og þess vegna skiptir miklu máli hvernig fer með sölu þessa fyrirtækis ef af verður. Mín skoðun er sú að það þurfi að tryggja samkeppnina á þessum markaði og það sé skilyrðislaus skylda ríkisvaldsins að sjá til þess að slík samkeppni sé fyrir hendi og að hún geti leitt til lægra verðlags, þannig að ég er alveg sammála því sem kom fram hjá hv. þm. enda greiðir ríkið verulegan hlut af lyfjakostnaði hér á landi. Það hefði verið ástæða til þess að ræða dálítið um lyfjaverð, ekki einungis hér á landi heldur í heiminum því lyfjakostnaður er orðinn einn aðalkostnaður heilbrigðisþjónustu og jafnvel ríkisútgjalda í hinum vestræna heimi og nánast óyfirstíganleg stærð hjá ýmsum iðnvæddum þjóðum.
    Ein af spurningunum sem til mín var beint var sú hvernig ætti að framkvæma 4. gr., þ.e. hvernig ráðherra ætlaði að tryggja það að fyrirtækið lenti ekki höndum þeirra fyrirtækja sem nú eru á markaðnum. Í raun lét einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar fyrirtækið Kaupþing kanna þetta á sínum tíma og það liggja fyrir tillögur um það frá því í október á sl. ári. Nú er ekki þar með sagt að eftir þeim tillögum verði farið, en það eru til hugmyndir um það hvernig hægt væri að standa að slíkri sölu. Til að nefna hugmyndirnar --- og ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki þar með að segja að þeim verði fylgt heldur einungis að gefa það í skyn að málið hafi verið kannað --- þá bendir fyrirtækið á að svonefndum millifjárfestum verði gefinn kostur á að taka þátt í kaupunum með kvöð um að setja félagið á markað innan ákveðins tíma. Það skipti einnig máli að ríkið haldi a.m.k. fimmtungi hlutafjárins og stjórnarmanni um sinn til þess að ljóst sé og því sé fylgt að hlutdeildin fari á almennan markað. Þá er á það bent í áliti fyrirtækisins að hugsanlegt sé að fara þá leið að bjóða fyrirtækið út og láta hópa eða tiltekna aðila skila inn hugmyndum um verð og fyrirkomulag enda verði ríkið áfram inni sem þátttakandi. Allar hugmyndirnar sem fram hafa komið eru á þann veg að ríkið geti ekki í einni svipan horfið úr eignaþátttöku í fyrirtækinu heldur beri að fylgja þessum sjónarmiðum eftir sem fram koma í 4. gr. frv.
    Við höfum áður rætt um dreypilyfin sem ég hygg að fyrirtækið hafi byrjað að framleiða á miðjum sjötta áratugnum. Þetta er kannski einn mikilvægasti þáttur framleiðslunnar og hefur tekist vel og ég sé ekki annað heldur en einkafyrirtæki geti hæglega tekið við slíkri starfsemi.
    Það er rétt að það er yfirlýsing í greinargerðinni um það að einkavæðingin sé góð fyrir ríkissjóð. Það sem býr að baki þeim ummælum er að sjálfsögðu það að einkavæðingin eins og hún er hugsuð hér á að leiða til harðari samkeppni og ég rifja það upp að á sínum tíma var Lyfjaverslun ríkisins rekin með allt öðrum hætti heldur en nú á undanförnum árum þannig að Lyfjaverslunin var eins konar banki fyrir heilbrigðiskerfið, ekki síst fyrir Ríkisspítalana. Það söfnuðust stundum upp hundruð milljóna skuldir um áramót sem síðan voru leystar með aukafjárveitingum á þeim tíma. Frá þessu hefur verið horfið og á undanförnum árum hefur fyrirtækið verið að breytast í venjulegt viðskiptafyrirtæki.
    Þegar rætt er um sölu fyrirtækisins, og reyndar kom hv. 6. þm. Vestf. að því máli einnig, þá er það mat þess fyrirtækis sem hefur skoðað og tekið út Lyfjaverslunina að það verði hægt að ná inn fjármunum, bæði fyrir fyrirtækið eins og það stendur nú og þeim viðbótum sem koma í fyrirtækið þegar framkvæmdum er lokið Við verðum að hafa það í huga að nokkur hluti framkvæmdanna er fjármagnaður með lánum þannig að það er ekki hægt að leggja saman virði fyrirtækisins og viðbæturnar og fá heildartölu út úr því, því að fyrirtækið mun þurfa að skuldsetja sig um nokkurra ára skeið og þá ber að líta á nettótöluna. Það er hins vegar alveg óvíst hvert markaðsverð fyrirtækisins er og á það reynir ekki fyrr en við fáum kauptilboð frá tilvonandi eigendum fyrirtækisins.
    Varðandi birgðahald fyrir almannavarnir skal það tekið fram að aðstandendur frv. telja eðlilegt að dómsmrn. fyrir hönd almannavarna geri samning annaðhvort við sjúkrahús eða sjúkrahús og lyfjadreifingar- og lyfjasölufyrirtæki um birgðahald fyrir almannavarnir. Slíkir samningar eru þekktir, t.d. við apótek í dag, þar sem þau eru skylduð til að halda úti lágmarksbirgðum og það er ekkert sem þarf að koma í veg fyrir að slíkan samning sé hægt að gera við tiltekin fyrirtæki og greiða fyrir eða skylda þannig að skyldan nái jafnt til allra. Það er hins vegar óeðlilegt að einu einkafyrirtæki séu sett þessi takmörk umfram önnur slík fyrirtæki sem eiga í samkeppni á þessum markaði.
    Varðandi ríkisábyrgðina, þá er það hárrétt sem hv. 6. þm. Vestf. sagði að það er unnið að því að draga úr ríkisábyrgð og þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að ég taki það fram að sú ríkisábyrgð sem við erum að fjalla um í þessu tilliti er ekki þessi venjulega ríkisábyrgð þar sem ríkið samþykkir að veita ábyrgð á viðkomandi láni, heldur er ríkisábyrgðin einungis eigendaábyrgð ríkisins og það er skylt að setja í lánsfjárlög lántökur B-hluta stofnana og fyrirtækja. Það er eingöngu það sem ég átti við þegar ég talaði um ríkisábyrgðina og það þýðir auðvitað að áður en kemur til kasta ríkisins sem ábyrgðaraðila, þá verður fyrirtækið gert upp, gert gjaldþrota eins og gengur og gerist með venjuleg viðskiptaleg fyrirtæki, þannig að það sem ég átti við var einungis það að ríkisábyrgðin er sams konar og sú ábyrgð sem ríkið ber á opinberum fyrirtækjum, B-hluta fyrirtækjum og stofnunum og fyrirtækjum í eigu ríkisins. Ég minni í því sambandi á Síldarverksmiðjur ríkisins, ríkisviðskiptabankana og svo mætti lengi telja. Það var það eina sem ég átti við í mínu máli. Og það er skylda þessara fyrirtækja að afla lánsfjárheimildar með lögum.

    Ég held, virðulegi forseti, að ég hafi með þessum orðum a.m.k. nefnt flest það sem kom fram í ræðum hv. þm. Ég vænti þess að málið gangi til efh.- og viðskn. og fái síðan umfjöllun í heilbr.- og trn. og lýsi því yfir að ráðuneytið mun að sjálfsögðu gefa allar þær upplýsingar sem um verður beðið og er í valdi ráðuneytisins á meðan málið er til umfjöllunar í viðkomandi nefnd.