Fordæmisgildi dóms um innflutning á skinku

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 13:45:06 (698)


[13:45]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Enn vil ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Það er út af fyrir sig ekki ástæða til að gera að miklu umtalsefni þetta formlega atriði varðandi meðferð gagna í réttinum. Það sem hlýtur þó að vekja nokkra athygli er að stefnandi byggir málsvörn sína gagnvart tveimur ráðherrum og tveimur ráðuneytum í ríkisstjórn ekki síst á gögnum frá þriðja ráðuneytinu.
    Mér er svo ljóst eins og ég sagði áðan að frekari málsmeðferð hvað varðar það brot sem til umræðu er hér og átti sér stað með ólögmætum innflutningi varningsins á Keflavíkurflugvelli, samanber fordæmisgildi dómsins, heyrir undir annað réttarstig en hæstv. fjmrh. hefur með höndum. Ég segi það að lokum að einhvern tíma einhvers staðar á byggðu bóli hefur ráðherra sagt af sér af minna tilefni en því að fá á sig dóm sem ótvírætt staðfestir að tiltekin embættisgjörð hans var ólögleg.