Endurskoðun laga um náttúruvernd

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 13:54:08 (704)

[13:54]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Mig langar að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. umhvrh. Þannig er mál með vexti að þann 29. jan. 1992 var ég skipuð í nefnd af fyrrv. hæstv. umhvrh. samkvæmt tilnefningu þingflokks framsóknarmanna til endurskoðunar á lögum nr. 47/1971, um náttúruvernd. Hér var um níu manna nefnd að ræða og formaður var Höskuldur Jónsson. Um það leyti sem þingi var frestað sl. vor hafði nefndin haldið 20 fundi. Nú í haust barst mér bréf frá formanni nefndarinnar, dags. 15. sept., þar sem hann segir að umhvrh. hafi tjáð sér að hann muni leggja niður umrædda nefnd og sendir með ljósrit af gögnum sem hann hafi sent fyrrv. umhvrh. þann 7. júní 1993 og þakkar jafnframt samstarfið. Þau gögn sem formaðurinn sendi ráðherranum innihalda m.a. frv. til nýrra laga um náttúruvernd sem hann tekur fram að séu hans tillögur þar sem það hafi þurft tvo fundi til viðbótar til þess að sjá hversu víðtæk samstaða sé um tillögurnar, þ.e. frv., í nefndinni. Og ég hlýt því að spyrja hæstv. umhvrh.:
    a. Hvers vegna leyfði hann nefndinni ekki að hittast tvisvar í viðbót þannig að eitthvað lægi fyrir um það hvort það gæti orðið af sameiginlegri niðurstöðu?
    b. Mun hann skipa nýja nefnd til þess að semja frv. að nýjum náttúruverndarlögum þar sem honum leist ekki nógu vel á þá nefnd sem var að störfum?
    c. Telur hann ekki ástæðu til þess að leggja fram frv. til breytinga á lögunum frá

1971?
    d. Mun hann leggja fram það frv. sem samið var af fyrrv. formanni nefndarinnar?
    Vil ég nú skilja þessar spurningar eftir hér til þæginda fyrir hæstv. ráðherra.