Endurskoðun laga um náttúruvernd

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 13:56:13 (705)


[13:56]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Það getur nú varla talist héraðsbrestur þó að nýr ráðherra slái af eina af fjölmörgum nefndum sem eru í ráðuneytunum. En ástæðan fyrir því að eitt af mínum fyrstu verkum var að leggja niður þessa nefnd er einfaldlega sú að það er nauðsynlegt að semja frv. til laga um stjórnskipan Náttúruverndarráðs í framhaldi af því að það er búið að stofna umhvrn. Þetta gerði forveri minn sér mætavel ljóst og þess vegna setti hann á laggir nefnd sem átti einmitt að gera það, átti að véla um hlutverk Náttúruverndarráðs og stjórn náttúruverndarmála. Hann setti þessari nefnd ákveðinn frest. Hún átti að vera búin að skila 1. ágúst 1992.
    Nú er það svo að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir er glöggur þingmaður, vel að sér í tímatalsfræði og ég tók við embætti sem umhvrh. tæpu ári síðar. Þá var ekkert komið frá þessari nefnd og þess vegna tók ég þá rökréttu ákvörðun að slá þessa nefnd af vegna þess að hún hafði ekki skilað því sem hún átti að gera. Í því felst enginn áfellisdómur á þá ágætu nefndarmenn sem margir hafa vafalaust unnið vel í nefndinni, en ég taldi það að undir þessari forustu og eins og nefndin hafði starfað væri kominn tími til þess að leggja hana niður. Þetta er raunar ekki eina nefndin sem núv. umhvrh. hafði lagt niður.
    En af því að spurt er hvers vegna ráðherra hafi ekki leyft nefndinni að hittast tvisvar í viðbót, þá varð það nú að samkomulagi milli mín og þáv. formanns nefndarinnar og hún fengi að hittast einu sinni til þess að borða saman síðustu kvöldmáltíðina. ( Gripið fram í: Var það rjúpa?) Formaður nefndarinnar kaus að nýta ekki það tækifæri, það frétti ég einungis á skotspónum síðar, en ég hefði talið það mikla ofrausn að ætla nefndinni að hittast tvisvar sinnum.
    Ég mun ekki skipa nýja nefnd til þess að semja frv. að nýjum náttúruverndarlögum og ég mun heldur ekki leggja fram það frv. sem formaður nefndarinnar skilaði mér, enda kom það glöggt fram þegar ég las frv. að þar var vélað um allt annað heldur en nefndin var fyrst og fremst sett niður til þess að ræða. (Forseti hringir.)
    Og svo að ég komi í c-liðinn, virðulegi forseti, þá er spurt þar hvort ég telji ekki vera ástæðu til þess að leggja fram breytingar á lögunum frá 1971. Svarið er jú. Ég tel að það sé rétt og ég mun kynna drög að þeim hugmyndum á náttúruverndarþingi sem hefst á föstudag.