Endurskoðun laga um náttúruvernd

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 13:58:55 (706)

[13:58]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég var ekki að vekja athygli á þessu máli til þess að fá ráðherrann til að lýsa því yfir að hann gæti hugsað sér að bjóða mér út að borða, heldur hitt að mér finnst að þarna hafi verið farið illa með tíma nefndarmanna með því að halda 20 fundi og ekkert liggur eftir nefndina annað en þau gögn sem formaðurinn sendir á eigin ábyrgð til fyrrv. hæstv. umhvrh. Og ég segi: Það er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra að nefndin hafi ekki fjallað um stjórnskipan Náttúruverndarráðs því að hún gerði það líka. Það sést reyndar á tillögum formannsins fyrrverandi að hann leggur til nokkuð róttækar breytingar á Náttúruverndarráði sem ég neita ekki að var fjallað um í nefndinni þó svo að við berum ekki ábyrgð á endanlegum tillögum.
    Ég lýsi ánægju með það að hæstv. ráðherra ætlar að leggja fram tillögur að breytingum á þessum lögum og mér finnst að þar þurfi margt að skoða og m.a. 11. gr. þeirra laga sem gilda í dag sem þýða nánast það að almenningur hefur ekki heimild til þess að ganga um girt land.