Sameining sjúkrahúsa í Reykjavík

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 14:03:49 (710)

[14:03]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. vita stendur nú fjárlagavinna yfir og til þess að fjárlög megi verða sem raunhæfust er til mikilla þæginda að stjórnendur stofnana viti hvert hlutverk sé ætlað hverri stofnun. Þess vegna vil ég beina fyrirspurn til hæstv. heilbr.- og trmrh. um framtíð sjúkrahúsanna í Reykjavík. Fjárlög byggjast ekki á umræðum um eitthvað heldur ákvörðunum um hvernig stofnanir skuli starfa. Stendur til að ákvörðun verði tekin um sameiningu einhverra af sjúkrahúsunum í Reykjavík og þá hverra? Hvenær verður sú ákvörðun tekin? Verður hún tekin áður en gengið verður frá fjárlögum fyrir árið 1994?